Epli og appelsínur

Bananar - Mynd: Wikipedia

Ef ég, af einhverjum ástæðum, stæði frammi fyrir því að nauðsynlega þurfa að segja hver uppáhalds ávöxturinn minn er myndi ég reyna að meta kosti og galla þeirra ávaxta sem mér dytti í hug og miða að því að fá sem áræðanlegastan samanburð á þeim svo ekki væri hægt að hrekja niðurstöðurnar og þannig, mögulega, koma mér í klípu.

Annars vegar er það appelsínan sem þarf lítið að segja um þegar litið er til þess að hún þykir nógu góð til að nefna heilan lit eftir(gulrætur og tígrisdýr þóttu ekki nægilega frambærileg). Af einskærri tillitssemi og til þess að hafa þetta ekki of langt vil ég biðja þig að trúa því að kostirnir hafi verið fleiri þó ég telji þá ekki upp hér.

Hins vegar er það eplið, frábært í alla staði. Ég þekki t.a.m. engan sem hefur lýst yfir andstyggð sinni á eplum. Þó að enginn litur heiti í höfuðið á eplinu bætir það þann stórgalla upp með því að bjóða upp á marga liti til að velja úr. Reyndar eru til yfir 7500 tegundir af eplum í heiminum og ekki nema rétt um 600 af appelsínum, svo kannski er ósanngjarnt að bera þessa tvo ávexti saman. Svo ekki sé minnst á að þeir bragðast algjörlega ólíkt hver öðrum. 

Kannski hefurðu áttað þig á gildrunni sem eiginhagsmunaseggurinn ég, lagði fyrir þig. Þessum pistil er ekki ætlað að fjalla um samanburð ávaxta, en nú hefurðu lesið það mikið að það er líklegra en ekki að þú nennir að lesa áfram.

Í fréttaveitunni minni á facebook virðist annar hver maður vera að missa sig yfir því að Kim Dotcom(Kim Schmitz), eigandi vefsíðunnar Megaupload, var handtekinn á dögunum og ákærður, m.a. fyrir stórfelld brot á höfundarrétti. Það hefur hingað til þótt sjálfsagt mál að geta niðurhalað þáttum, bíómyndum, plötum og lögum ókeypis í gegnum síður sem þessa og þykir mörgum stórlega brotið á rétti sínum þegar þessi „fríðindi“ eru tekin af þeim.

Þegar fréttist af því að Kim gæti mögulega átt yfir höfði sér 50 ára fangelsisvist fyrir þessi „smávægilegu brot“ spratt upp hingað og þangað um alnetið mjög svo forvitnileg mynd. En hún er einmitt það sem þessi pistill fjallar um. Á þessari mynd eru glæpir Kims okkar bornir saman við glæpi spænsks manns að nafni Miguel Carano sem nauðgaði og myrti konu og kveikti svo í líkinu. Miguel þessi fékk 20 ára dóm sem að margra mati er allt of lítið.

Réttlæti dómsins yfir Miguel Carano er vel umdeilanlegt og ég hefði ekki fellt tár ef nokkrum áratugum hefði verið smurt ofan á. Hins vegar þykir mér mjög varasamt að gera Kim að píslarvætti og draga úr brotum hans með því að bera glæpi þessara manna saman. Að bera saman fjárglæpi við nauðgun og morð getur seint talist sniðugt. Auðvitað þykir flestum brotin sem Miguel framdi ófyrirgefanleg með öllu. Sem betur fer. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að Kim Dotcom er ákærður fyrir mjög margþætt lögbrot sem réttarkerfi Bandaríkjanna gerir kröfu um að refsað sé fyrir, þó svo að ekki sé um jafn hræðilega glæpi að ræða.

Svo ég fylgi nú tískunni og endi á sama stað og ég byrjaði þá þykir mér hér verið að bera saman epli og appelsínur. Bæði mál eru hvort í sínu lagi umdeilanleg eins og flest allt en ég bið ykkur vinsamlegast um að meta stöðuna vel áður en þið takið þá ákvörðun að gera allt sem þið getið til að fylla fréttaveitur vina ykkar af þessari snilld.

Epli eru einfaldlega ekki það sama og appelsínur

Pétur Karl

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir