Er allt að fara til fjandans?

Það fer ekki framhjá neinum manni að ástandið á Íslandi í dag er ekkert frábært. Það er kreppa, við vitum það alveg. Við skuldum þúsund skrilljón milljónir (ég held að öllum sé orðið nokk sama hver upphæðin sé í raun og veru),  jújú við vitum það líka. Þetta þýðir niðurskurður hérna og skattahækkanir þarna. En er einhver raunhæf áætlun á bakvið þetta? Eða er allt einfaldlega að fara til fjandans?

Á hverjum einasta degi sjáum við viðtöl við stjórnmálamenn, viðtöl við hagfræðiprófessora, viðtöl við „égveitmiklubeturenþú“ karla. Þetta fólk talar allt fram og til baka, ýmist um hvað sé betra en á horfðist eða verra en á horfðist, hvaða aðgerðir sé betri eða verri að ráðast í, hvað við eigum að borga eða ekki borga. Hinn almenni borgari er farinn að leiða þetta hjá sér þar sem hann er löngu búin að gefast upp á því að reyna að skilja hvað í ósköpunum sé í gangi.

En þá er vart að velta fyrir sér, vita stjórnmálamennirnir þetta betur en við? Er einhver stórkostleg áætlun hangandi uppi á vegg í stjórnarráðinu þar sem er vandlega búið að reikna út aukinn gróða ríkisins í bland við lán frá erlendum „vinum“ okkar, borgunin á Icesave og eftir X mörg ár verðum við aftur kominn í það að græða á daginn og grilla á kvöldin? Eða er þetta kannski bara ein handskrifuð glæra þar sem stendur „AGS+Iceasve=ESB=Partý“ ?

Ég held að mörgum, þá ekki síst ungu fólki sem væri alveg til í að eiga bjarta framtíð, langi til að vita nokkurn veginn hvert þetta stefnir allt. Erum við á leið í að verða þriðja heims ríki eftir að niðurskurður á öllum félagslegum stofnunum er búinn að leggja samfélagið í rúst? Eða er verið að redda þessu öllu saman? Að sjálfsögðu tel ég aðgerðir ríkisstjórnarinnar miða að engu öðru en að bjarga þjóðinni. En er okkur orðið viðbjargandi? Er virkilega til ásættanleg lausn á þessu ástandi eða erum við að fara að vera í skítnum um ókomna áratugi? Ég veit ekki ekki hvort að ríkisstjórnin viti þessa hluti. Og ef allt væri á leið á versta veg myndi hún kannski ekkert tilkynna okkur um það, enda myndum við öll stinga af og þá væri enginn eftir til að borga skuldirnar.

En nú er rétt rúmt ár síðan Geir H. Haarde sagði við þjóðina: „Guð blessi Ísland“.

Það er spurning hvort við eigum eftir að sjá Jóhönnu í beinni útsendingu segja „Guð hjálpi Íslandi“.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir