Er ég maður eða mús?

Ómar og Grétar

Það eru þrjár megin ástæður fyrir því að ég dreif mig aftur í nám. Þegar að ég hélt á syni mínum nýfæddum í fanginu breyttist ég. Ég fann ábyrgðartilfinninguna bókstaflega hellast yfir mig. Og það sem meira var, ég var tilbúinn að axla þá ábyrgð sem fylgir því að ala upp barn og vera fjölskyldufaðir. Hluti af því er að vera fyrirmynd. Ef ég vil að börnin mín mennti sig þá verð ég að vera menntaður sjálfur. Önnur ástæðan var útskrift konunnar minnar úr lögfræði núna í sumar. Ég sá gleðina yfir árangrinum. Ég fann að afrekið hennar var gríðarlegt. Mig langaði að afreka þetta líka. Þriðja ástæðan var sú að fjölmiðlafræðin nýtist mér í starfi. Ég starfa í fjölmiðlum og ef ég vil halda því áfram og koma mér áfram í starfi. Ég er maður og vil ekki vera mús.

Ég heiti Ómarog er á þrítugasta og þriðja aldursári. Ég er alin upp úti á landi og er afskaplega þakklátur fyrir það. Ég starfaði lengi vel sem smiður og hóf nám en kláraði aldrei sveinsprófið. Sannleikanum samkvæmt þá fann ég mig aldrei í iðnarmennsku. Þrátt fyrir það var þessi tími afskaplega þroskandi.  Það er hollt að verða líkamlega þreyttur. Það er hollt að vinna með höndunum og það er hollt að skapa eitthvað í erfiðisvinnu. Þetta starf var fínn grunnur fyrir mína fjölmiðlamennsku.

Fyrir átta árumhóf ég störf í útvarpi og fann fljótlega að ég hafði fundið mína hillu í lífinu. Mig hlakkar til að mæta til vinnu á hverjum morgni og það er virkilega gefandi. Ég starfa sem dagskrárgerðarmaður á útvarpsstöðinni X-977 og stjórna þar morgunþætti alla virka morgna frá kl 07:00 – 11:00. Samhliða því starfi er ég sömuleiðis tónlistarstjóri á sjónvarpsstöðinni PoppTV. Dagurinn byrjar snemma og þátturinn er tónlistartengdur til að skapa honum ákveðna sérstöðu á þeim tíma sem að hann er í loftinu. Á Bylgjunni og á Rás 2 finnur fólk umræðu um málefni líðandi stundar. Á FM -957, Rás 2 og á Kananum finnur fólk grín og flipp. Á Rás 1 og á X-977 finnur fólk tónlist og mola tengda tónlistinni til að koma sér af stað inní daginn.

Ég valdi fjölmiðlafræðina við Háskólann á Akureyri vegna þess hversu áhugavert mér fannst námið. Ég stundaði fjarnám við Keili fyrir áramót og það gafst mér vel. Því er ekki að neita að ef námið hefði staðið mér til boða í Reykjavík þá hefði ég farið í það. Það er einn stór grundvallarmunur á fjarnámi við Keili og Háskólann á Akureyri. Í Keili var lögð áhersla á hópamyndun nemenda í fjarnámi. Skólinn lagði ríka áherslu á það að fólk t,d í Reykjavík hittist og ynni sitt nám. Þessi hópamyndun gaf náminu aukna vídd, þannig eignaðist ég vini til lífstíðar og fólk hjálpaðist að í náminu. Í dag er námið óskaplega akademískt. Maður er í raun bara einn með bókum og tölvu og það þykir mér miður. Sérstaklega í námi eins og fjölmiðlafræði sem gengur svo mikið útá samskipti við fólk. Sjálfsagt er mikið að fólki að stunda þetta nám hér í Reykjavík og mér finnst að skólinn ætti að hafa frumkvæði í því að koma fólki saman. Hvað er útvarp án hljóðs? Og hvað er nám án mannlegra samskipta?

Ómar Eyþórsson


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir