Er eitthvað að mér í hausnum?

Mynd: Google

Þegar stórt er spurt er oft lítið um svör. Jú, vissulega er nú eitthvað að mér í hausnum, en hvort ég þurfi að láta rannsaka það eitthvað sérstaklega að ég hef miklu meira gaman af því að horfa á karlaíþróttir en kvennaíþróttir skal ósagt látið. Hvers vegna finnst mér meira gaman af því að horfa á karla fótbolta, -handbolta og íshokkí en kvenna hef ég bara ekki hugmynd um og væri í sjálfu sér kannski vert að skoða.

Forsaga málsins er sú að ég á frænku, sem er mikill jafnréttissinni, og við ræðum oft jafnrétti, birtingamynd þess og hvernig túlka megi jafnrétti. Oft höfum við rætt um íþróttir og jafnrétti og erum við ekki alveg sammála þar, þó svo ég vilji svo sannarlega jafnrétti, þá erum við ekki sammála þegar kemur að áhorfi á íþróttir.

Og þá kemur aftur að setningunni, ,,er eitthvað að mér í hausnum“.  Ég veit fátt skemmtilegra en að horfa á fótbolta, karlaboltann þá. Einnig hef ég gaman af að horfa á karlahandbolta og íshokkí karla – en veit því miður ekkert leiðinlegra en að horfa á þessar íþróttir spilaðar af konum. Mér finnst einfaldlega hraðinn og  harkan í áðurnefndu karla sporti meira spennandi en sem viðgengst hjá konunum. Ég hef svo sannarlega lagt mig fram um að horfa á áðurnefndar kvennaíþróttir en sjaldan leiðst eins mikið – af hverju? Jú, það er allt eitthvað svo rólegt og ,,silkimjúkt“ í þessum kvennaíþróttum.

Ég hef farið á nokkra karla íshokkíleiki og finnst það hrikalega gaman, hraði, harka og pínu slagsmál kannski og menn reknir út af, og þetta finnst mér æði. Svo fór ég á tvo kvennaleiki og leiddist. Skildi ekkert í því þegar margar stelpurnar voru reknar útaf því í sumum tilfellum höfðu þær rétt rekist saman – og ,,wolla“ – útaf með þig góða! Þetta finnst mér nú ekki spennandi.

Ég hef líka lagt mig í líma við að horfa á kvenna fótbolta - og handbolta – en eins og með íshokkíið, drullu leiðist mér. Það hefur komið fyrir að ég hef horft á kvennaleik í fótbolta því ég vorkenndi þeim hvað það voru fáir áhorfendur – vá, hvað er það? Ég hafði þá verið að horfa á son minn keppa með 2. flokk, í mínum gamla heimabæ, og þokkaleg mæting á leikinn hjá þeim – svo þegar þeir voru búnir að spila, skokkuðu meistaraflokksstelpurnar inná – og, þá fóru bara allir! Mér fannst ég einfaldlega ekki getað farið, það varð nú einhver að horfa á ,,vesalings“ stelpurnar keppa.

Ég fer stundum og horfi á fótbolta á fótboltabar hér í bæ og oft röflað um það hversu fáar konur mæti á þá leiki. Stundum er ég ein með um 100 köllum, það hefur komið fyrir að ég hef talið um 10 konur en þá hafa karlarnir verið svona 150+. Hvar er þá jafnréttið þar? Af hverju hafa ekki fleiri konur áhuga á t.d. enska- eða spænska boltanum? Það hef ég reyndar ekki hugmynd um heldur en ég ,,fíla“ mig oft sem eitthvað skrítna þegar ég sit ein með hátt í hundrað köllum, æpandi, gargandi, bölvandi eða sigri hrósandi – svo ég tali nú ekki um ef mitt lið vinnur, þá er maður skælbrosandi og álíka hamingjusamur og lítill krakki að fá óskagjöfina frá jólasveininum. Þetta væri kannski rannsóknarverkefni út af fyrir sig, hver veit.

En, þar sem ég er kona, þá ætti ég nú kannski að hafa meiri áhuga á áðurnefndum kvennaíþróttum – eða hvað? Er ég skyldug til þess til að sýna konum sem stunda þessar íþróttir stuðning af því ég er kona og mæta á leiki hjá þeim? Tjaaa nú veit ég bara ekki – þetta er einu númeri of stór spurning fyrir mig, en kannski er þá bara eitthvað að mér í hausnum eftir allt!

Bjarney Hallgrímsdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir