Er framhaldsnám í Danmörku góður kostur?

Steinunn og Finnur með son sinn Hörð.

Íslendingar hafa átt það til að halda til Danaveldis til þess að stunda nám í gegn um tíðina. Reglulega heyrir maður að það séu betri kjör þar fyrir námsmenn og að skólakerfið þar sé betur uppbyggt en heima á okkar fögru Ísafold. Við hjá Landpóstinum ákváðum að skoða þetta mál aðeins nánar og náðum tali af hjónunum Finni Smára Torfasyni og Steinunni Hödd Harðardóttur. Þau hafa búið í Danmörku í þrjú ár og líkar það vel. En hver var ástæðan fyrir því að þau fluttust úr landi og ákváðu að halda í nám erlendis? 

„Það er ekki boðið upp á spennandi framhaldsnám í verkfræði, og þá sérstaklega ekki rafmagnsverkfræði á Íslandi,“ sagði Finnur. Hann tók það fram að námið í Danmörku væri mun fjölbreyttara og tengdara atvinnulífinu. „Það mun nýtast manni betur þegar maður fer út á vinnumarkaðinn.“ Steinunn tekur í sama streng og Finnur. „Upphaflega fluttumst við til Danmerkur vegna þess að Finnur fór í tækniskólann (DTU). En þegar hann hafði lokið námi langaði okkur ekkert heim strax svo að ég ákvað að skrá mig í nám sem kallast „Nature Management“ og er kennt við Háskólann í Kaupmannahöfn.“ Finnur er kominn með fasta vinnu sem að tengist náminu. „Ég er að vinna sem „Research Assistant“ hjá deildinni sem að ég gerði lokaverkefnið mitt hjá í DTU, sagði Finnur.“

Nám í Danmörku er frítt fyrir íslendinga og þær þjóðir sem að eru innan ESB og EES, en hjónin Steinunn og Finnur tala þó um að skólabækur séu á svipuðu verði og á Íslandi. Finnur sagðist hafa fengið námslán frá Íslandi. „Þau eru mjög há svo að maður getur lifað mjög þægilegu lífi hérna. Verðlagið í Danmörku er þó mjög svipað og á Íslandi svo að það er ekki beint hagstætt að vera nemandi hérna eins og er.“ Ef að fólk er í vinnu í 10 til 12 tíma á viku er þó hægt að sækja um svokallaðann SU námsstyrk. Með SU styrknum koma ýmis fríðindi. Það er ókeypis í almenningssamgöngur og einnig er afsláttur gefinn í mörgum búðum, veitingastöðum og söfnum. Steinunn segir styrkinn þó ekki vera háann og það er erfitt að lifa á honum einum saman.

Freistandi að sleppa því að læra dönskuna

Námsefnið er allt kennt á ensku og Finnur sagði að það hafi verið freistandi að sleppa því að læra dönskuna. „Mér fanst auðvelt að lesa og skrifa dönsku en að tala hana og að skilja Dani er mjög erfitt.“ Danir tala mjög hratt og með miklum hreim að sögn Finns. Steinunn sagði að grunnurinn úr grunn- og framhaldsskóla hafi nýst vel varðandi Dönskuna. „Ég viðurkenni þó að það er erfitt að ná tökum á framburðinum, en maður verður bara að stökkva út í djúpu laugina og tala dönsku eins mikið og maður getur,“ sagði Steinunn. Hún sagði þó að það gæti stundum verið snúið vegna þess að danir eiga það til að svara á ensku þegar þeir heyra að danskan er ekki fullkomin. „Það var gríðarlegur sigur þegar ég gat talað við opinbert starfsfólk eins og t.d. lækna á dönsku,“ sagði Steinunn stolt. Hún sagði að Danir væru kunnugir um Dönsku kennslu íslendinga og því væru jafnvel settar meiri kröfur á íslenska nemendur en aðra vegna þess að kennarar gera ráð fyrir því að íslendingar kunni dönskuna vel.

Margir kostir við að stunda framhaldsnám í Danmörku

Hjónin Steinunn og Finnur tala bæði um að það sé mjög gott að stunda framhaldsnám í Danmörku og mæla eindregið með því að fólk sem hefur verið að gæla við þá hugmynd láti verða af því. „Það er mikill kostur að námið sé frítt og svo er það kennt á ensku þannig að það hentar öllum“, segir Finnur. Hann segir jafnframt að það sé auðvelt að lagast lífinu í Danmörku og ódýrt að fljúga heim til Íslands. Steinunn segir að einn helsti kosturinn fyrir hana sé umhverfið. „Ég er í námi sem tengist umhverfinu og hér er náttúran fjölbreyttari og meira að skoða en á Íslandi.“ Þau segja að það sé vel stutt við barnafólk í námi, en þau eiga einn son sem að er á þriðja ári. Á meðan fólk hefur ekki tekjur vegna skólagöngu  er frítt í leikskóla, húsaleigu- og barnabætur hækka ásamt því að öll almenn heilbrigðisþjónusta er ókeypis.

Fjölskyldan er dugleg að gera sér eitthvað til gamans utan skóla eða vinnu. „Við förum reglulega í tívolíið og svo eru skemmtileg söfn, dýragarður, sædýrasafn og margt fleira í boði hérna í Kaupmannahöfn“. Finnur talar um að það sé meiri afþreying í boði í Danmörku en á Íslandi en aftur á móti sé hún töluvert dýrari. Steinunn talar líka um þessa skemmtilegu hjólamenningu í Danmörku. „Það er hægt að hjóla um allt sem að skapar oft skemmtilega stemningu. Hérna í Danmörku er bara kúl að hjóla og ferðast með strætó“, segir Steinunn. Hún segir að Danskur hugsunarháttur sé töluvert öðruvísi en á íslandi varðandi þetta. „Fólk tekur með sér nestispakka í stað þess að kaupa sér í sjoppum eins og tíðkast á íslandi.“ Hún segist þó sakna sundlauganna sem að eru á Íslandi. Það eru fáar sundlaugar í Danmörku og það er dýrt að kaupa sér aðgang í þær.

En ætla þau sér að búa í Danmörku í framtíðinni eða er stefnan sett heim?

Þau segja að það sé ekkert í kortunum á næstunni að koma heim en auðvitað sé það stefnan á endanum. „Auðvitað vill maður vera nær fjölskyldunni, en á þessari tækniöld sem við lifum á er maður í raun aldrei langt í burtu frá þeim“, segir Steinunn  að lokum við Landpóstinn.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir