Flýtilyklar
Hvað er Black Friday?
Black Friday, eða svartur föstudagur virðist hafa náð fótfestu á Íslandi en 45%, eða 47 af þeim 104 síðum Fréttablaðsins í dag höfðu auglýsingar tengdar deginum. En fremur voru 34 af síðum blaðsins heilsíðu auglýsingar tileinkaðar deginum en Black Friday er orðinn að árlegum viðburði í mörgum vestrænum ríkjum. Rekja má upphaf Black Friday til Bandaríkjana þar sem viðburðurinn á sér stað árlega, daginn eftir þakkargjörðarhátíðina (e. Thanksgiving) sem fer fram síðasta fimmtudaginn í nóvember. Á þessum degi bjóða stórmarkaðir upp á veigamikinn afslátt af vörum sínum en í fyrra eyddu Bandaríkjamenn 50,9 milljörðum bandaríkjadala yfir þessa helgi eða rúmlega 6,7 billjónum íslenskra króna (6.777.335.000.000 ISK)
„Þetta er í fyrsta sinn sem þessi dagur kemur inn með svo afgerandi hætti, og þá verður ljóst hvaða áhrif hann mun hafa á verslun í desember. Við verðum með vikulegar athuganir á hvernig jólaverslun hefur gengið í samstarfi við Rannsóknarsetur verslunarinnar, og þá munum við geta metið hvaða áhrif hann hefur,” segir Andrés Magnússon, framkvæmdarstjóri Samtaka verslunar og þjónustu í viðtali við Vísi í dag.
Verslanir opna yfirleitt fyrr en vanalega þessa helgi en flestar búðir opna milli 05.00-07.00 um morguninn á meðan aðrar opna um miðnætti. Biðraðir á þessum degi geta oft verið ofsafengnar og viðskiptavinir í Bandaríkjunum mæta sumir hverjir fyrir utan verlsanir seint um kvöldið fyrir umræddan föstudag með aðbúnað til að eyða nóttinni í biðröð.
Sú iðja, að tjalda yfir nótt í biðröð, var í fyrsta skipti bönnuð síðasta ár í Cuyahoga Falls í Ohio þar sem að gífurleg hætta skapaðist þar árið 2013 vegna brunahættu sem varð af tjaldi sem upphitað var með gaskút en slökkvuliðið átti erfitt með að komast að eldsupptökum þar sem að biðraðir af viðskiptavinum hindruðu aðkomu.
Mynd: Robert Mecea, New York Daily News
Á síðasta áratug hafa 98 slasast og sjö aðrir látið lífið í kjölfar verslunar brjálæðis á þessum degi. Meðal annars hafa vopnuðum viðskiptavinum lent saman, viðskiptavinir og afgreiðslufólk hefur kramist undir fólksfjölda og fjöldskylda lést eftir að þreyttur ökumaður sofnaði undir stýri eftir að hafa beðið vakandi í biðröð nóttina áður. Vefsíðan Blackfridaydeathcount.com hefur haldið utan um þessar tölur frá árinu 2006.
Árið 1951 er talið að M.J. Murphy notaði orðið Black Friday fyrstur manna í sambandi við daginn eftir þakkargjörðarhátíðina í grein sem titluð var ‘Heilræði í mannlegum samskiptum fyrir framkvæmdarstjóra’ (e. Tips to Good Human Relations for Factory Executives)
Þar biðlaði Murphy til framkvæmdarstjórnar fyrirtækja að gefa verkamönnum fjögurra daga helgi með því að bæta föstudeginum við áður gefna frídaga sem tengdust þakkargjörðarhátíðinni. Um þennan dag og notaði Murphy orðið Black Friday til að lýsa stöðnuðum og mannlausum verksmiðjum. Verksmiðjunar voru mannlausar vegna mikilla veikinda sem virtust grípa landann á þessum degi eftir hátíðarhöldin kvöldið áður.
Vinsældir nafnsins Black Friday má hins vegar má rekja til Philadelphiu á sjöunda áratug síðustu aldar þar sem að lögreglan þar talaði um dagana tvo eftir þakkargjörðarhátíðina sem ‘Black Friday’ og ‘Black Saturday’ vegna þess hve mikil umferð bíla og fólks var á þessum dögum. Lögreglumenn í Philadelphia þurftu iðulega að vinna 12 tíma vaktir þessa föstu- og laugardaga. Orðið Black Friday hefur nokkrum sinnum verið notað yfir sorgaviðburði í Bandaríkjunum og þess vegna voru á sjöunda og áttunda áratugnum gerðar tilraunir til þess að endurnefna þennan föstudag eftir þakkargjörðarhátíðina, ‘Big Friday’ vegna þess hve neikvæða meiningu orðið ‘Black’ gæti haft á orðasamsetninguna en án árangurs. Black Friday var orðið of rótgróðið og hefur í dag náð heimsathygli.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir