Eru allir múslimar hryðjuverkamenn?

RÚV sýndi leikna heimildamynd í gærkvöldi um nokkra breska íslamska vini sem ferðast til Pakistan til að vera viðstaddir brúðkaup vinar síns. Árið er 2001 og þeir ákveða að fara til Afganistan. Sprengjuárásir Bandaríkjanna hefjast á nánast sama tíma og þeir koma til landsins og vegna rangrar leiðsagnar enda þeir í hóp með Talíbönum þegar þeir reyna að flýja aftur til Pakistan. Þeir eru teknir höndum af vinaher Bandaríkjanna og enda í Guantanamo fangelsinu, eða nánar tiltekið Camp X-Ray á Kúbu. Þar er þeim hent inn í einhvers konar búr gert úr girðingu þar sem þeim er bannað að tala og standa. Þeir voru seinna færðir á betri stað en voru þó í fangelsinu í 3 ár.

 

Þessi heimildamynd veitti mér nýja sýn á Bandaríkjaher og -stjórn. Þessir vinir voru allir breskir borgarar og tóku engan þátt í neinum hryðjuverkum eða tengdust Al-qaeda á nokkurn hátt. Þeir voru hinsvegar látnir dúsa í fangelsum aðeins fyrir það að vera múslimar að því er virtist. Hermennirnir nutu þess að niðurlægja þá, kölluðu þá hryðjuverkamenn og pyntuðu þá. Þeir voru sendir margsinnis í sama yfirheyrsluherbergið og spurðir sömu spurninga mánuðum saman. Engin réttarhöld voru höfð, ekkert réttlæti. Þeir voru sendir í einangrun og festir  í stressstellingu (þeir voru hlekkjaðir á fótunum og hendurnar festar á milli ökklanna þeirra).

Þessar aðferðir sem notaðar voru til þess að fá þá til að játa því að þeir voru í Al-qaeda voru sláandi. Að eins virt land og Bandaríkin skuli hafa notað þessar að mér finnst fornlegu aðferðir er ótrúlegt. Það var logið að þeim, þeim sýndar myndir og bent á menn sem áttu að vera þeir og er þeir neituðu voru þeir sendir í einangrun í 5-6 klst í senn, síðan sendir aftur í yfirheyrslu þar sem þeir voru spurðir að því sama aftur og aftur. Þetta gerðist aðeins fyrir 5-7 árum.

Að þetta fangelsi skuli hafa verið starfandi til ársins 2009 er hlægilegt. Hermenn höfðu allt vald yfir föngunum og nýttu sér það til fullnustu. Það sem mér þótti athyglisvert er hve litla virðingu hermennirnir höfðu fyrir trú fanganna. Nú eru allmargir múslimar strangtrúaðir en föngunum var bannað að biðja og einn hermanna henti Kórani eins fangans í horn þar sem hann gerði þarfir sínar. Ég móðgaðist mjög við þetta og get engan vegin skilið hvernig hermennirnir gátu hagað sér eins og þeir gerðu. Þeir gengu í skrokk á fanga sem ekki var heill á geði og hótuðu hinum föngunum sömu meðferð ef þeir myndu ekki þegja. Þessi litla virðing sem ég bar gagnvart bandarískum hermönnum er nú horfin. Þessi illska og yfirgangur er eitthvað sem ég gat ekki gert mér í hugarlund.

Vinunum þremur var sleppt árið 2005 eftir að hafa verið í fangelsinu frá árinu 2002. Engin réttarhöld voru haldin heldur báðust bandarísk yfirvöld bara afsökunar og þar við sat. Mér fannst þessi heimildamynd sýna hvernig manneskjan getur breyst þegar henni er gefið smá vald. Ég stór efast um að hermennirnir sem komu fram í myndinni láti svona t.d. heima hjá sér. Þeir fyllast valdagræðgi og breytast í eitthvað sem þeir kannski eru ekki. Þetta eru auðvitað bara getgátur en ég mun aldrei hugsa um eða líta á hermenn sömu augum aftur.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir