Fáránleg leiga á stúdentagörđum

Peningar fjúka

Þegar ég ákvað að flytja til Akureyrar í háskólanám tók ég ígrundaða ákvörðun um að leigja á stúdentagörðum Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri.  Sú ákvörðum þótti mér skynsöm og rökvís þar sem mér fannst ákveðið öryggi í að leigja í gegnum stofnun tengda skólanum. Leigan var örlítið lægri en á almennum leigumarkaði og ég taldi öruggt að á stúdentagörðum væru námsmönnum tryggð sem best kjör.  Svo virðist hreint ekki vera. 

Þegar ég flutti inn í litlu 54 fm íbúðina á Klettastíg í ágúst borgaði ég um 63 þúsund krónur fyrir mánaðarleigu með hita og rafmagni, síðan þá hafa þúsundkallarnir hlaðist ofaná jafnt og þétt og hljóðaði síðasti reikningur upp á rétt tæpar 71 þúsund krónur, 70.925 til að vera nákvæm.  Það er um 13% hækkun á 7 mánuðum!  Sömu sögu er að segja af vinum og kunningjum á stúdentagörðum. 

Vinkona mín leigir 73 fm stúdentaíbúð Fésta á Kjalarsíðu.  Þegar hún flutti inn í ágúst var leigan rúmar 92 þúsund krónur en leiga febrúarmánaðar var 109 þúsund krónur!  Það er 18,5% hækkun!  Annar félagi leigir 18 fm herbergi með sameiginlegu eldhúsi og baðherbergi á stúdentagörðunum Útsteini, leigan þar var 32 þúsund í upphafi skólaárs en er nú 36 þúsund.  Það er um 12% hækkun.

Skólafélagi minn leigir kjallaraíbúð stærri en mína í miðbæ Akureyrar á 68 þúsund krónur á mánuði.  Önnur vinkona og vinnandi kærasti hennar leigja svo 90 fm íbúð með hita, rafmagni og hússjóði á 85 þúsund krónur á mánuði.  Það gerir rúmar 900 krónur á fm, á meðan vinkonan á Kjalarsíðu sem er námsmaður og einstæð móðir borgar rétt tæpar 1.500 krónur á fm.

Jú, leiguverð á stúdentagörðunum er tengt vísitölu neysluverðs, en samkvæmt því ætti 63 þúsund króna leiga í ágúst að vera um 68 þúsund krónur í dag.  Ofan á þetta bætist verðhækkun á hita og rafmagni.

Námslán hafa ekki hækkað, hvað þá húsaleigubætur og það er ekki hlaupið í vinnu meðfram skóla um þessar mundir.  Að námsmaður sem fær 360 þúsund krónur í námslán á önn þurfi að borga 355 þúsund af því í leigu (og hér er gert ráð fyrir að leigan hækki ekki) er engan veginn við hæfi. 
Þegar ég sótti um á stúdentagörðum í haust var biðlisti en nú standa íbúðir margar auðar, um 20 manns hafa sagt íbúðum sínum upp síðan um áramót.  Er ekki betra að koma til móts við námsmenn með betri kjörum til þess að halda þeim í íbúðunum, í staðinn fyrir að láta íbúðirnar standa auðar.  Hvort hefur meira upp úr sér?

Ragnar Sigurðsson, formaður Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri hefur barist fyrir bættum kjörum námsmanna á stúdentagörðum, en hann situr einnig í stjórn Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri, Fésta. 

Fésta hefur reynst mér vel síðustu 7 mánuðina, hvað viðhald, þjónustu og almennilegheit varðar, en ég neyðist til að fara héðan, og þykir það mjög leiðinlegt, verði ekkert að gert.  Fundað verður hjá Fésta á morgun og hvetjum við námsmenn Ragnar og stjórnina til að sjá til þess að eitthvað verði að gert, sama hvaða leið verður farin, annars líður ekki að löngu þar til húsin standa hér auð.

 

Mynd: http://www.imagebank.com/


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir