Farðu bara út að hlaupa, það er svo ótrúlega ódýrt!

Mynd tekin af heimasíðu Unrunner

Ég veit ekki hvað ég hef oft heyrt þessa setningu, sérstaklega eftir að „kreppan“ skall á okkur eins og fellibylur sem hrifsað með sér mest allt fé landsmanna, eða hið minnsta mikið af því.

Við verðum fyrir sífelldu áreiti um mikilvægi líkamsræktar, allir þurfa að koma sér í form, eiga hið minnsta eitt líkamsræktarkort og vera sjúkir í Sushi. En nú á dögum finna flestir óneitanlega meira fyrir því en áður að borga 60 til 70 þúsund fyrir árskort í ræktina og reikna ég með að það sé ein af ástæðunum fyrir því að þessi fleygja setning um að fólk eigi bara að fara út að hlaupa hafi náð þessum gríðarlegu vinsældum, enda miklu hagstæðara, eða hvað?

Til gamans ákvað ég að taka saman hvað kostar annarsvegar að vera meðalhlaupari sem hleypur úti nokkur skipti í viku án þess að láta íslenskt veðurfar mikið á sig fá og hinsvegar hvað það kostar að vera líkamsræktari, þessi sem á kort í ræktina og fer þangað nokkur skipti í viku.

Líkamsræktarinn:

Hann kaupir sér árskort í ræktina sem er svona einhversstaðar frá verðbilinu 60 þúsund upp í einhverja hundrað þúsund kalla, en við skulum reikna með að meðal líkamsræktarinn sleppi öllum auka fínheitum eins og aðgengi að baðstofum og slíku og má þá reikna með verði frá 60- til sirka 80 þúsund krónur.

Fatnaður:

Reikna má með því að meðalræktarinn sé íklæddur æfingarbuxum (10 þúsund+) íþróttabol (6 þúsund +), íþróttasokkum(2 þúsund+), íþróttatopp ef kvenkyns (6 þúsund+) og nokkuð góðum íþróttaskóm(15 þúsund). En þeir sem hlaupa mikið á bretti eru líklegri til að eiga dýrari gerð af hlaupaskóm (30 þúsund) á meðan aðrir láta sér nægja ódýrari útgáfur af góðum skóm.

Samtals þarf ræktarinn því að greiða 99- 140 þúsund til að geta stundað líkamsræktina.

Hlauparinn:

Árskort í ræktina er mjög líklegt að hann eigi, því flestir sem hafa hlaupið af einhverju ráði komast fljótt að því að hlaupin ein og sér eru ekki nóg til að viðhalda sterkum líkama. En við ætlum þó að reikna með því í okkar reiknisdæmi að hann hafi lagt skynsemina til hliðar og ákveðið að sleppa því, hann borgar því 0 krónur í líkamsræktarkort, strax komin í plús, eða bíðum við.

Fatnaður:

Þar sem hlauparinn lætur íslenska veðráttu lítið á sig fá þá þarf hann að eiga ágætis úrval af fatnaði sem hentar bæði frosti og sól og sumaryl. Hann á því bæði íþróttabuxur sem hann notar þegar kalt er í veðri og aðrar þynnri eða styttri sem hann dregur fram þegar sólin tekur að hækka á lofti (2* 10 þúsund+). Hann kemst fljótlega að því að skórnir eru krjúsal atriði til að forðast meiðsli og því lætur hann kína töflurnar eiga sig og spreðar í 30 þúsund króna hlaupaskó. Hann þarf að eiga stuttermabol, langermabol og hlýjan bol (3*6 þúsund+), vindheldan jakka (15 þúsund+), góða hlaupasokka (5 þúsund+), íþróttatopp ef kvenkyns (6 þúsund+) og húfu og vettlinga (5 þúsund+).

Samtals þarf því hlauparinn að greiða um 99- 140 þúsund krónur til að geta stundað hlaup.

Bíðum nú við, sama upphæð!

Flestir sem ákveða að hlaupa að einhverju ráði og gerast þessi meðalhlaupari sem þeysist um allar götur nokkrum sinnum í viku fara fljótlega að eyða peningum í hlaupaúr. Ég get lofað ykkur því að það er fátt leiðinlegra en að hafa ekki hugmynd um hvað æfingin var löng í km, hvað hún tók langan tíma og hvort að maður sé eitthvað að bæta sig, en hlaupaúr kostar í kringum 50 þúsund krónur.

Að gamni mínu tók ég saman þann fatnað sem ég var íklædd eitt vetrarkvöld á leið minni út að hlaupa, að úrinu meðtöldu, 140 þúsund krónur og ekki var ég í gull jakkanum í það skiptið. Algengt er að fólk vanmeti þau gæði sem líkaminn þarf á að halda ef það á að pína hann út í hvaða veðráttu sem er til að öðlast góða líkamsrækt.

Vafalaust eru einhverjir sem hugsa núna, en bíddu maður þarf ekkert svona dýran fatnað, þetta er val hvers og eins! Vissulega er það rétt, en það er staðreynd að því oftar sem fólk fer út að hlaupa því hærri kröfur setur það um þægindi og trúið mér, þessar kröfur spretta upp ansi snemma á hlaupaferlinum.

Hver ætlar að hlaupa á kína töflunum einhverja tugi kílómetra í viku? Hver ætlar hlaupa um í sveittu bómullarpeysunni í -10°sem gerir þá lítið annað en að kæla mann niður, og hver ætlar að hlaupa um í bómullar joggingbuxunum sem gera ekkert annað en að þvælast fyrir manni?

Nú hugsa kannski einhverjir karlmenn að þeir myndu aldrei láta sjá sig í lakkrísbuxunum á almannafæri, við þá vil ég segja,

allir karlmenn sem ætla að hlaupa eitthvað að ráði enda á að kaupa sér þessar þröngu, hver ætlar að hafa sviðasár á innanverðum lærum og jafnvel ofanverðum kvið, fer eftir umfangi hvers og eins? Enginn……það sama gildir um þetta strákar mínir og toppinn hjá konum, strappa þetta niður“.

Það er alveg ljóst að sparnaðurinn verður lítill hjá þeim sem ætla sér að stunda útihlaup til að draga úr kostnaði við líkamsrækt. Um leið og hlauparinn ákveður að eyða minni peningum í gæði þá er líklegra að hann muni hljóta meiðsli af, hvort sem þau eru svöðusár eða einhverskonar bólgur vegna óhentugs útbúnaðar sem getur síðan kostað tíma hjá sjúkraþjálfara eða lækni og eru slíkir tímar fljótir að borga upp kostnað þess útbúnaðar sem þörf er á.

Nú ætla ég ekki að letja fólk til að stunda útihlaup, þau eru dásamleg, en endilega hafið í huga hvað góður og réttur útbúnaður skiptir miklu máli. Auðvitað þarf fólk ekki að fara og kaupa fínustu græjur strax í dag þó því langi út að hlaupa, en verið hið minnsta meðvituð um að nota góða skó frá upphafi, hitt getur komið með tímanum.

 Góða skemmtun ;)


Ingibjörg Elín Halldórsdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir