Félagslegt áhorf fer minnkandi

Sameiginlegt sjónvarpsáhorf fjölskyldumeðlima fer minnkandi, auk þess sem val á sjónvarpsefni er mun einstaklingsmiðaðra en áður. Þetta eru niðurstöður rannsóknar Jakobs Bjur, við fjölmiðlafræðideild Háskólans í Gautaborg, en viðfangsefni Jakobs var félagslegt áhorf sjónvarps (social viewing).

Áður fyrr var sjónvarpsáhorf félagslegt fyrirbæri, fjölskyldumeðlimir komu saman í stofunni og horfðu á sama þáttinn, í sama sjónvarpstækinu. Þegar mætt var til vinnu eða skóla daginn eftir, mátti ganga að því vísu að vinnu- og skólafélagar höfðu einnig séð sama þáttinn og með þessu gat skapast samræðugrundvöllur sem byggði á sameiginlegum reynsluheimi. Með tilkomu fjöldamargra sérhæfðra sjónvarpsstöðva, og internetsins, er ekki lengur hægt að tala um sjónvarpsefni sem sameiginlegan afþreyingarpunkt fjölskyldunnar, eða samfélagsins. Algengt er að á heimilum nú til dags séu fleiri en eitt sjónvarp, sem dreifast um herbergi heimilanna og fjölskyldumeðlimir dreifast með og hverfa hver inn í sinn eigin sjónvarpsheim. Á internetinu er svo hægt að horfa á sjónvarpefni og -þætti „online“, og eykur það einnig líkurnar á því að hver fjölskyldumeðlimur velji sér sjónvarpsdagskrá eftir eigin áhuga.  

Jakob bendir á að árið 1999 var sameiginlegt sjónvarpsáhorf heimilismeðlima 45%, en árið 2008 var það komið niður í 37%. Hann segir að ekki sé lengur hægt að tala um sjónvarpsdagskrána sem „félagslegt lím“, eða sameiginlegan reynsluheim og trúir því að þróunin sé komin til að vera.

Engu að síður eru ýmsir stórir dagskrárviðburðir, eins og Eurovision og íþróttalandsleikir, sem mælast ennþá með hátt sameiginlegt áhorf fjölskyldumeðlima en það er augljóst að umhverfi sjónvarpsdagskrárinnar hefur breyst töluvert. Stórar sjónvarpsstöðvar hafa kvíslast upp í fjölmargar sérhæfðar undirstöðvar, einmitt til að þjóna einstaklingsbundnum áhuga neytenda og ná til sem flestra. Samkeppnin um áhorfandann er mikil og tekur Jakob sem dæmi sænsku sjónvarpsstöðina TV4, sem byrjaði sem ein stöð en er orðin að 30 minni, og sérhæfðari stöðvum í dag.

Jakob bendir að lokum á, að þessi sérhæfing í sjónvarpsáhorfi auðveldi fyrirtækjum á auglýsingamarkaði að sigta út besta markhópinn fyrir vörur sínar og herja síðan á hann af alefli með alls kyns gylliboðum.


- Martha Elena Laxdal


Heimild

  • http://www.sciencedaily.com/releases/2010/01/100118111734.htm


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir