Fíflið og Frelsarinn

Frelsarinn á heimavelli

Kristján Ingimarsson er leikari sem kemur víða við og fer ekki troðnar slóðir.  Þessa dagana er hann að vinna að sýningu sem hann skapaði í samvinnu við íslenskt og danskt leikhúsfólk. Leikritið var frumsýnt í Kaupamannahöfn þann 7 mars síðastliðinn eftir æfingar og sköpun verksins á Akureyri.  Nú er komið að því að verkið verði flutt hér á landi en íslensk frumsýning verður í Þjóðleihúsinu næstkomandi fimmtudag og í framhaldi verða tvær sýningar í Samkomuhúsinu hjá LA.

Akureyringar ættu að þekkja Kristján frá sýningu hans Mike Attack sem sýnt var á síðasta leikári hjá LA en einnig sá hann um lokaatriði síðustu Akureyrarvöku og stjórnaði þar Byltingu Fíflanna.  Nú færir Kristján sig frá Fíflum yfir til Frelsara og veltir fyrir sér þeirri spurningu hverju fólk er alltaf að bíða eftir.  Er beðið eftir endurkomu Frelsarans eða er biðin bara eftir því næsta sem gerist?

Hvað kemur svo á eftir þegar búið er að bylta bænum með Fíflunum og fjalla um Frelsarann? Jú, Kristján á ekki í vandræðum með að finna nýtt viðfangsefni og næsta verk er þegar í vinnslu með vinnuheitið Skepnan.  Þar er tekist á við sköpunarferli lífs og leiks. Meðal viðkomustaða í sköpunarferlinu verður Háskólinn á Akureyri en verkið verður m.a. skapað með fyrirlestrum þar sem nemendur geta haft áhrif á framgang verksins.  Spennandi.

Viltu vita meira?

Hér fyrir neðan er hægt að sjá hvernig Kristján svarar spuringum Landpóstsins og einn er linkur á kynningarmyndband af Frelsarans en eins og sjá má er þar um óvenjulega sýningu að ræða þar sem myndmálið og sjónhverfingar spila aðalhlutverk í stað hins hefðbundna texta:

http://leikhusid.blog.is/blog/leikhusid/video/2365/ 

Hvernig skilgreinir þú þig?Ég er alltaf að uppgötva aftur og aftur að ég er allt annar en ég hélt að ég væri. Ekki skánar það þegar ég reyni að staðsetja mig, þá líkist ég einna helst túrista sem stendur og gónir á miðann sinn og efast um að hann hafi lent á réttum stað. 

Hver er þinn kjarni?  Ég er farinn að trúa að það sé frekar laukur sem endalaust hægt er að hýða en að það sé einhver fastur kjarni þarna inni. Einhverskonar Pétur Gautur.  

Staða: þe. Hjúskapar, búskapar og önnur stöðulýsing:Ég er giftur henni Gitte og saman eigum við 3 yndislega krakka. Það er ekki skörp stjórnskipan í þeirri fjölskyldu. Sveiflumst svolítið á milli Anarchi og Dictatorship. Ég held kanski að ég ráði miklu en það er örugglega mesti misskilningur. 

Hvernig er að búa á Akureyri og hvers vegna Akureyri?Það gott að vera á Akureyri þegar maður er sjálfur í góðum gír. Ég kom til Akureyrar sumarið 06, eftir 14 ára dvöl í Danmörku, til að vökva ræturnar og leyfa börnunum mínum að kynnast landinu á sinn eiginn hátt. 

Bakgrunnur:Tryggur uppvöxtur á Brekkunni, agi og ást en umfram allt tími. Tími til að leika sér, uppgötva og ímynda sér. 

Hvernig er starfið – staðan?Leiklistarmaður. Þetta starf er sérhannað fyrir mig en ávallt undir stöðugri endurhönnun. Ég er minn eiginn herra og minn eiginn þræll, mikið óöryggi en engin hætta á að ég verði rekinn. Svo er þetta stórhættulegt fyrir líkama og sál enda mæli ég ekki með þessu fyrir nokkurn mann. 

Framtíðarárform:Bjarga heiminum, verða ódauðlegur, kaupa mér eyju, setjast þar að og taka á móti pílagrímum.  

Eftirminnilegur dagur:Dagurinn sem ég gekk út úr líffræðiprófinu í Háskóla Íslands, settist einn inn á fínt veitingahús í Reykjavík og ákvað að vera samkvæmur sjálfum mér. Kennisetningin “Lokaðu hurðinni, þá opnast þér gluggi” hefur oft sannað sig síðan. 

Ef þú mættir og gætir farið í tímavél, farið hvert sem er og hitt hvern sem þú vilt – hvert ferðu og með hverjum ertu:Það væri svolítið gaman að hoppa tæp 39 ár aftur í tímann og fá að taka á móti sjálfum sér. Eða er það voða egotiskt?  

Matarboð: hvað er í boði? Hver eldar og hverjir sitja við borðið?Það er David Lynch sem eldar og það er mér algerlega ómögulegt að ímynda hvað hann ætlar að servera. Með mér eru allir sem þora.

 

 

Mynd: VAJ

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir