Fjölskylduböl og dómgreindarskortur?

Mynd: dailyhighfive.com
Skiptar skoðanir hafa verið á umfjöllun fjölmiðla á máli Jóns Baldvins og hefur í því samhengi aðallega verið deilt um hvort málið eigi erindi við almenning á opinberum vettvangi. Jón Baldvin segir sjálfur að um „fjölskylduböl‟ sé að ræða sem hann sé margfaldlega búinn að biðjast afsökunar á. Þráinn Bertelsson tekur í sama streng á Facebook síðu sinni þar sem hann segir „Það er sorglegt og langt handan mennsku, smekks og dómgreindar þegar miskunnarlaust fólk reynir að gera sér gamalt heimilisböl fólks að féþúfu‟.

Ég er satt besta að segja mjög hugsi yfir þessum viðbrögðum þar sem þetta mál er afgreitt sem einhvers konar óútkljáð fjölskyldudeila sem tilheyri fortíðinni sem engin ástæða sé fyrir utanaðkomandi að velta sér upp úr. Ég hef nefnilega áhyggjur af því hvaða skilaboðum sé þá verið að senda ungum stúlkum sem mögulega eru í svipaðri aðstöðu og Guðrún.

Því miður er rík tilhneiging hjá þeim einstaklingum sem telja sig hafa orðið fyrir kynferðisbroti að bera harm sinn í hljóði. Sérstaklega þegar meintur gerandi er tengdur fórnarlambinu nánum fjölskylduböndum og hættan á sundrungu innan fjölskyldunnar vegna málsins er mikil. Þá er einnig algengt að þolandinn sé gerður að sökudólgi með því að gera hann ábyrgan fyrir fjölskyldubölinu með uppljóstrun sinni. Kynferðisafbrotamál eru því oft þögguð niður.

Nú hefur Jón Baldvin neitað allri sök um kynferðislega áreitni í garð Guðrúnar og því til stuðnings bendir hann á að öllum kærum um slíkt hafi jafnharðan verið vísað á bug. Hann hefur þó beðist afsökunar á bréfaskrifunum sem hann segir sjálfur að beri vott um dómgreindarskort. Við lesturinn á umræddu bréfi má þó öllum vera það fullljóst, að innihald þess fer langt út fyrir öll þau mörk sem geti talist eðlileg í samskiptum fullorðins einstaklings við barn. Þarna er eldri maður að klæmast við unga stúlku sem hvorki hefur aldur eða þroska til þess að taka á móti slíkum boðskap. Skilgreining Jóns á dómgreindarleysi er því í þessu samhengi afar loðin og teygjanleg. Þess utan gefur sú ósk hans, að Guðrún haldi bréfinu leyndu, það sterklega til kynna að hann er sér alveg fullmeðvitaður um að innihald þess sé ekki af eðlilegum toga. Þá er ég þeirrar skoðunar að ekki hafi með fullnægjandi hætti verið skorið úr um saknæmi athæfisins þar sem málinu var á sínum tíma vísað frá vegna tæknilegs atriðis. Ég tel það því ekki vera rétt túlkun hjá Jóni Baldvini að réttarkerfið sé búið að staðfesta sakleysi hans í málinu.

Svona mál á ekki að meðhöndla sem einhvers konar fjölskylduleyndarmál sem ekki megi tala um á opinberum vettvangi. Það er í mínum huga alveg klárt mál að Jón Baldvin breytti rangt gegn þessari stúlku og samfélagið þarf að gefa skýr skilaboð um að athæfi af þessu tagi séu ekki undir neinum kringumstæðum ásættanleg. Með því væri í leiðinni verið að veita öðrum stúlkum, sem lent hafa í svipuðum aðstæðum og Guðrún, skilaboð þess efnis að þær ættu allan rétt á því að stíga fram til að leita réttar síns.

Hildur Friðriksdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir