Fordómar eða hjálparhönd

Hjálparhönd

Í Morgunblaðinu 20.janúar birtist grein eftir Þuríði Hjálmtýsdóttur þar sem hún fjallar um geðræn vandamál barna og unglinga.  Þuríður er sálfræðingur og fjölskylduráðgjafi á Heilsugæslustöð Akureyrar.

Í greininni veltir Þuríður því fyrir sér hvort við, í raun, lítum hvert til með öðru og hvort við gerum okkur grein fyrir því, í flóknu nútímasamfélagi, hvert við eigum að leita þegar erfiðleikar steðja að.  Mér finnst að greinin hljóti að vera upplýsandi, fyrir foreldra barna með geðraskanir, um það hvert hægt sé að leita eftir stuðningi.  Þuríður greinir frá fjögurra ára aðgerðaáætlun yfirvalda sem er ætlað að styðja við börn/unglinga og fjölskyldur þeirra hér á landi.  Áætlunin er byggð á skilgreiningum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Þuríður fjallar sérstaklega um þá þjónustu sem fólk á kost á að leita hjá Heilsugæslustöð Akureyrar.

    Ég tek þessari grein fagnandi  bæði af persónulegum ástæðum og eins vegna þess að ég hef mikinn áhuga á vegferð barna og unglinga.  Ég tel að ég fari ekki með rangindi að halda því fram að geðsjúkdómar og þar með geðraskanir mæti enn töluverðum fordómum á Íslandi.  Ég get auðvitað ekki fullyrt um ástæðuna en það er hinsvegar ljóst að á þeim sviðum þar sem almenning skortir upplýsingar geta fordómar blómstrað.  Ég er á þeirri skoðun að opin umfjöllun um þessi málefni sé að líta dagsins ljós og sé í réttum farveg fyrir tilstuðlan óeigingjarnrar vinnu fagaðila.

    Það heyrist oft á vettvangi að alls kyns greiningar á hegðun og líðan barna séu að verða stærsta “afsökunin” fyrir óhlýðni og ófyrirleitni.  Það má vera að “ofgreining” eigi sér stað en hún er kannski ekki óeðlileg á meðan við erum að fóta okkur í fræðunum.  Geðraskanir eins og einhverfu eða athyglisbrest má rekja til vanþroska eða bilunar í taugakerfinu og rétt að taka fram að það hefur ekkert með greind að gera.  Börn og unglingar með slíkar raskanir skera sig, vegna hegðunar sinnar, óhjákvæmilega úr samfélaginu og standa, öðrum fremur, óvarin frammi fyrir jafnöldrum og jafnvel þeim sem eldri eru.  Þau eru m.ö.o. líklegri til að verða skotmörk eineltis.  Ég tel að með almennari fræðslu um eðli geðraskanna væri stórlega hægt að minnka líkurnar á því.

    Það er til í dæminu að einstaklingur greinist ekki með geðröskun fyrr en á unglingsaldri og þá sé staðið frammi fyrir þeirri staðreynd að hann sé jafnvel búinn að fara í gegnum grunnskólakerfið sem óalandi og óferjandi og jafnvel endalaust skammaður fyrir hluti sem hann hefur engan veginn ráðið við.  Það segir sig sjálft að það byggir ekki upp sjálfsmyndina en meðhöndlun á barni með geðröskun byggir öðru fremur á hrósi og uppörvun.

    Í grein Þuríðar kemur fram mikilvægi fjölskyldunnar í aðstæðum sem þessum og er ég hjartanlega sammála því.  En í stærra samhengi getur barn með geðröskun staðið frammi fyrir þeim afleiðingum skilningsleysis að það þrói með sér félagsfælni og kvíða til viðbótar röskuninni.  Til að mæta því stendur fjölskyldan frammi fyrir stóru verkefni.

   Mig langar að deila með ykkur tilvitnun úr bók sem ég las um jólin og heitir Kæri Gabríel.  Höfundur bókarinnar er Halfdan W. Freihow og er bókin skrifuð sem bréf föður til sjö ára einhverfs sonar síns:

   “Nei, Gabríel.  Vandamálin þín eru ekki hættuleg, að minnsta kosti ekki á sama hátt og til dæmis krabbamein og kransæðastífla, sjúkdómar sem maður getur dáið úr.  Þau eru heldur ekki hættuleg í þeim skilningi að þau geti valdið þér líkamlegum sársauka, eins og sár.  Og þau eru í öllu falli ekki hættuleg fyrir aðra – þú getur ekki “smitað” annað fólk.  Það eina sem getur verið hættulegt  í sambandi við vandamálin þín er að ekki sé tekið tillit til þeirra.” (Halfdan W. Freihow, 2004, bls.107). 

    Það sem gerði annars snjalla bók enn snjallari var að ég fékk hana í jólagjöf frá unglingi sem er að glíma við athyglisbrest .

    Það er gott að rekast á upplýsandi greinar eins og grein Þuríðar og vona ég að fólk gefi sér tíma til lesturs því öflun upplýsinga tel ég ábatasömustu leiðina til að eyða fordómum og tileinka sér frekar að rétta fram hjálparhönd.

 

Hlín Bolladóttir 

 

Ljósmynd:  Gyrðir Örn Egilsson


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir