Forheimskandi útvarpsefni

Sem nemandi í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri þá fylgir það náminu að læra eitthvað um fjölmiðla. Hvernig sem á því stendur.  Í áfanga sem kallast fjölmiðlarýni bar þáttinn Zúúber, sem er útvarpað á útvarpsstöðinni FM957, á góma í fjörugum umræðutíma um daginn. Sökum þess ákvað ég að brjóta odd af oflæti mínu og hlusta á einn þátt af áðurnefndum Zúúber.

Áður en ég skýri frá reynslu minni af þessari hlustun, þá ber mér þó skylda til að segja frá því að ég hef haft mikla fordóma gagnvart útvarpsstöðinni FM 957 hingað til og gæti því kannski ekki talist alveg hlutlaus þegar kemur af því að meta skemmtanagildi þáttsins.

En snúum okkur að reynslu minni af Zúúber. Ég hreinlega tel mig heppinn að hafa komist nokkuð heill frá þessari þrekraun  sem það var að hlusta á þennan miður skemmtilega þátt.
Það var nóg að hlusta á þennan eina þátt til að átta sig á því að þetta er ekkert annað en forheimskandi og mannskemmandi vitleysa. Annað eins tilgangslaust blaður hef ég ekki heyrt og hef ég þó umgengist margar mannvitsbrekkurnar í gegnum tíðina.

Að hugsa sér að það sé stór hópur fólks sem hlustar á þessa vitleysu gefur manni ekki mikla von um framtíð þessa lands. Ég ætla nú svo sem ekki að setja sjálfan mig á háan hest með því að þykjast vera einhver menningarfrömuður, en þvælan sem viðgengst í þessum þætti er bara svo yfirgengilega leiðileg að það nær ekki nokkurri átt. 

Að hlusta á fólk sem er komið hátt á fertugsaldurinn tala eins og einhverjir smákrakkar um miður gáfuleg málefni getur hreinlega þurrkað út það litla vit sem býr í kollum margra hlustenda.  Ég sjálfur er nú kominn á fertugsaldurinn og á það oft til að haga mér í ósamræmi við aldur minn og áætlaðan þroska, en ég hef þó ekki þau áhrif á annað fólk að það verði heimskari fyrir vikið að hlusta á mig.

Niðurstaða þessara tilraunar minnar er semsagt sú að fordómar mínir gagnvart FM 957 hafa algjörlega átt rétt á sér hingað til og hafa þeir aukist ef eitthvað er.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir