Forvitni, heiðarleiki og vandvirkni

Skapti Hallgrímsson.
Skapti Hallgrímsson leiddist fyrir tilviljun út í blaðamennsku, hann og félagi hans fréttu af lausum stöðum íþróttafréttamanna á Morgunblaðinu og ákváðu að sækja um. Þeir gerðu ekki endilega ráð fyrir að vera ráðnir enda ekki nema 16 ára gamlir. En þeir fengu vinnuna og nú 35 árum seinna er hann enn við störf á sama miðlinum.

Skapti hefur fjölbreytta og langa reynslu innan blaðsins. Hann hefur verið íþróttafréttamaður, séð um Akureyrarblaðsíður og unnið hefðbundnar fréttir. Hann hefur unnið bæði sem landsbyggðarfréttamaður, líkt og hann gerir núna og svo í höfuðstöðvunum í Reykjavík.

Hann segir muninn vera töluverðan en með aukinni og bættri tækni hafi þessi munur minnkað töluvert. Hann lætur sér ekki duga að skrifa og finna fréttir heldur tekur hann líka myndir og er mikill áhugamaður um ljósmyndun.

Það fer lítið fyrir þessum reynda blaðamanni og hann er ekkert að trana sér fram en hann hefur augljóslega húmor fyrir sjálfum sér og virðist kunna að meta lífið og tilveruna. Það sýnir sig einna best þegar hann nefnir sína eftirlætis frétt. Þar er umfjöllunarefnið lífsstyrkur, þroski og ótrúleg jákvæðni og seigla ungrar stúlku.

Fyrir nokkrum árum fór hann til Albaníu til að greina frá íþróttaviðburði, sem hann og gerði, tók hann krók á leið sína og vann grein um mannlífið í landi sem þá var nær alveg lokað umheiminum. Hann gekk um meðal fólksins, tók myndir og sagði þessa sögu þegar heim kom.

Fyrir Skapta er mikilvægara að vinna fréttirnar vel og vanda vel til verka en að vera endilega fyrstur með fréttina. Það er fátt verra en að flýta sér svo mikið að koma atburðinum til skila að ekki er gætt að öllum staðreyndum og gera stór mistök sem erfitt er að leiðrétta. Hann leggur mikla áherslu á að í sinni vinnu hafi hann tamið sér forvitni, heiðarleika og vandvirkni og segir það bestu eiginleika sem fjölmiðlamaður getur tileinkað sér.

Hann segir blaðamenn líka verða að vera duglega að spyrja og að engin spurning sé of heimskuleg, það að vera viss um að frásögnin sé rétt og að skilja það sem viðmælandi er að láta manni í té veigi meira en stolt þess sem spyr.

Starf Skapta innan Morgunblaðsins í dag er að skrifa í Sunnudagsblaðið og einnig er hann kallaður út til að vinna fréttir af Norðurlandi, einkum og sér í lagi ef þörf er á að mynda umfjöllunarefnið. Hann segir ritstjórnina lítið skipta sér af störfum hans og að í gegnum tíðina hafi hann lítið orðið var við þá sem stjórnað hafa blaðinu.

Hann virðist drifin áfram að einskærum áhuga og ást á því sem hann er að gera og það er líkt og hann dragist að hinu mannlega og jákvæða í samfélaginu. Hann virðist vera fagmaður fram í fingurgóma og bera mikla virðingu fyrir starfinu sem hann sinnir og vill vinna það vel.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir