Frá Los Angeles í álverið

Jónína G. Aradóttir

Tónlistarkonan og lagasmiðurinn Jónína G. Aradóttir hefur nýverið stigið fram á sjónarsviðið. Jónína, sem er 31 árs, ólst upp í Öræfasveit, nánar tiltekið á Hofi. Hún hefur lagt stund á tónlistarnám bæði í Danmörku og nú síðast í Hollywood í Los Angeles. Þar lærði hún í „The Musicians Institute“ í rúmlega þrjú ár. Á þessum stutta tíma hefur Jónína bætt sig mikið á öllum sviðum tónlistar, öðlast ómetanlega reynslu og gefið út smáskífu. Við hjá Landpóstinum ákváðum að kynna okkur þessa efnilegu tónlistarkonu aðeins nánar.

Jónína lauk námi sínu frá MI í Los Angeles nú í vor og útskrifaðist með diploma gráðu í „Associate in art and performance.“ Þar er farið yfir sitt lítið af hvoru sem að tengist tónlist eins og viðskiptahliðina, markaðsetningu, tónfræði, lagasmíði, upptökur og sviðsframkomu. En til að styrkja sig betur sem sjálfstæðan tónlistarmann tók Jónína sjálfstætt framhaldsnám af diplóma náminu, „Independent Artist.“ Að sögn Jónínu er það tilvalið fyrir þá sem eru komnir á þann stað í tónlistinni að taka upp, markaðsetja, búa til heimasíðu, gera plötur, plaköt og þess háttar. „Þetta er 6 mánaða námskeið sem er mjög skemmtilegt. Allt sem er kennt nýtist þér í hinum stóra heimi tónlistarinnar.“ Jónína nýtti tímann vel og gerði sína fyrstu smáskífu, „Into the Water,“ á meðan námskeiðinu stóð. „Þetta er fimm laga plata sem að ég tók að mestu leiti upp utan skólans en nýtti mér allt sem ég gat úr skólanum, en þar eru flott stúdíó og mikið af góðum kennurum sem að eru sjálfir að vinna í tónlist en eru samt gríðarlega hjálpsamir þegar maður þarf á hjálp að halda.“

Jónínu langaði til þess að fara í Bachelorinn sem að MI býður upp á en það er mun dýrara nám og fjárhagurinn bauð ekki upp á það. „Það er mikill metnaður lagður í það nám og það var vissulega freistandi að velja það en það er dýrt að búa í Los Angeles og því miður leifði fjárhagur minn ekki svo dýrt nám.“ LÍN lánar að hluta til fyrir diploma námi í MI. „Þeir greiða helming af skólakostnaði og framfærslu en ég þurfti að sjá um hinn hlutann. Ég þurfti svo alfarið að greiða framhaldsnámið mitt en ég hef þó fengið góðan stuðning frá vinum og ættingjum sem mæta reglulega á tónleika sem ég hef haldið.“

Mikil lífsreynsla að búa í LA

Jónína segir að hún hafi fengið mikið út úr því að hafa búið í Los Angeles. „Sú lífsreynsla er ómetanleg en það sem stendur þó mest upp úr þessu námi eru kynni mín á því frábæra fólki sem ég hef kynnst á þessum þremur árum. Ég hef kynnst nemendum, kennurum og starfsfólki frá öllum heimshornum,“ sagði Jónína. Hún sagði jafnframt að það væri heiður að fá að þekkja og vinna með nokkrum af bestu tónlistarmönnum framtíðarinnar. Það er stefna skólans að þjálfa fólk í því að koma fram. „Það var mikil lífsreynsla að troða upp víðsvegar um Los Angeles, bæði sem trúbador eða með hljómsveitinni minni.“ En Jónína kom ekki bara fram í Los Angeles á meðan hún var búsett í Bandaríkjunum. Hún fór í þriggja vikna tónleikaferðalag um Kaliforníu. „Ferðina skipulagði ég sjálf og allt sem ég lærði í framhaldsnáminu nýttist mér vel fyrir það.“ Jónína ferðaðist ein með gítarinn og spilaði á kaffihúsum, vínökrum og pöbbum víðsvegar um Kaliforníu. „Ég spilaði á allskyns tónleikastöðum og fékk mjög góðar móttökur alls staðar þar sem ég kom og kynntist frábæru fólki í leiðinni.“

Góður stökkpallur fyrir framhaldið

Jónína hefur ekki einungis stundað tónlistarnám í Ameríku heldur fór hún í lýðháskóla í Danmörku árið 2006. „Mér finnst mjög gaman að ferðast og upplifa tónlist í öðrum löndum. Einhverntíman heyrði ég að tónlist væri tungumál sem að allir í heiminum skilja en ég upplifði það ekki sjálf fyrr en ég fór í „Den Rythmiske hojskole“ árið 2006.“ Skólinn er staðsettur í Kaupmannahöfn og að sögn Jónínu er hann allgjör tónlistar paradís. „Hann er umkringdur skógi og náttúrunni og það var ekkert sem truflaði þig frá tónlistinni allann sólarhringinn.“ Í skóla sem þessum útskrifast nemendur ekki með gráðu, heldur eru sett upp stök námsekið sem nemendur geta skráð sig í. Jónína segir að hún búi enn í dag að þeirri reinslu og þekkingu sem að hún fékk í skólanum. „Ég mæli tvímælalaust með þessu námi, þetta er góður stökkpallur fyrir fólk sem að vill halda áfram í tónlist.“ segir Jónína.

Nýir tímar framundan

Jónína flutti aftur til Íslands í vor þegar dvölinni í Los Angeles var lokið. Hún fluttist heim að Hofi í Öræfum þar sem hún ólst upp og vann við siglingar á Jökulsárlóni síðastliðið sumar. Nú er hún hinsvegar búsett í Reykjanesbæ og vinnur í Álverinu í Straumsvík. En eigum við eftir að sjá tónlistarkonuna Jónínu G. Aradóttur koma fram á næstunni? „Ég hef verið að semja og spila á milli vakta en þó að það sé gaman að koma fram og spila fyrir fólk þá heillar lagasmíðin mig meira. Framtíðin hjá mér er að semja lög fyrir aðra tónlistarmenn.“ Jónína er þó með nokkur járn í eldinum. Hún er að skipuleggja tónlistarferðalag með lagahöfundi og söngkonu frá Svíþjóð. Einnig er hún að semja efni á nýja plötu þar sem kassagítarinn og hún sjálf verður í aðalhlutverki. „Við verðum að sjá hvað tíminn leiðir í ljós,“ segir Jónína G. Aradóttir að lokum við Landpóstinn.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir