Frábćrt tćkifćri

Sintija, Jarkko, Wibke og Eetu
Eins og fram hefur komið á vef Háskólans á Akureyri, undanfarna daga, hefur erlendum skiptinemum við skólann fjölgað umtalsvert á síðustu 2 árum. Nú á vorönn, stunda 27 erlendir nemendur nám við skólann og koma þeir frá 11 ólíkum þjóðlöndum. Rúnar Gunnarsson, alþjóðafulltrúi H.A., segir helstu ástæðu fjölgunarinnar vera gengisfall íslensku krónunnar og bendir á að, á milli skólaáranna 2008-9 og 2009-10, hafi fjöldi erlendra skiptinema við skólann hvorki meira né minna en tvöfaldast. Aftur á móti hefur dregið úr umsóknum íslenskra nemenda, sem sækja um skiptinám til þeirra erlendu háskóla sem H.A. er með samninga við. Rúnar segir að gengisþróuninni fylgi bæði kostir og gallar fyrir erlenda skiptinema.

Þannig var það t.d. skólaárið 2007-8, þegar krónan var sterkari, að skiptinemarnir hafi margir brugðið á það ráð að ráða sig í hlutastarf með skólanum, til að skrimta af veturinn; það hafi verið jákvætt að því leyti að þeir blönduðust meira inn í félagsmenninguna á Akureyri, auk þess sem þeir fengu aukin tækifæri til að bæta við kunnáttu sína í íslensku. Aftur á móti hefur styrkari staða evrunnar valdið því að nemendurnir búa nú við bættari hag og þurfa minna á hlutastörfum að halda, sem er jákvætt að mörgu leyti, en á móti kemur að þeir fá ekki eins fjölbreytt tækifæri til að kynnast bæjarbúum, utan skólans, og æfa sig í íslenskunni. Hins vegar hafa þeir meiri fjárráð, nú en áður, til að leigja sér betra húsnæði, ferðast um landið og njóta lífsins betur. Flestir skiptinemar koma til að stunda nám við H.A. í eina önn, en Rúnar segir að mjög margir, sem hófu nám á haustönn 2009, hafi framlengt námstíma sinn yfir á vorönnina að auki, og endurspegli þetta almenna ánægju nemendanna með dvöl sína hér.

Blaðamaður Landpóstsins heimsótti fjóra erlenda skiptinema við H.A. á dögunum og ræddi við þá um daginn og veginn. Öll búa þau á gistiheimilinu Gulu villunni, en hafa stundað nám við H.A. mislengi. Jarkko (24) og Eetu (23), koma báðir frá Helsinki Metropolia University of Applied Sciences, í Finnlandi, og kjörsvið þeirra er Media Engineering. Þeir hófu nám við H.A. haustið 2009 og ætla að dvelja hér fram á sumarið. Sintija (21), kemur frá Rīga Stradiņa University , í Lettlandi og hefur verið hér lengst. Hún leggur stund á Communication and Journalistics, og er á þriðju önninni sinni hér við H.A. og lýkur námi nú í vor. Wibke (21) er nýkomin til landsins og hóf skiptinám við skólann núna í janúar. Hún kemur frá bænum Halle, í Þýskalandi, og stundar nám í Cultural and Media Education, við Merseburg University of Applied Sciences.

 

Af hverju að velja Ísland – og Háskólann á Akureyri?

Þrátt fyrir að stunda nám við sama skóla í Finnlandi, þekktust Jaarko og Eetu ekki áður en þeir sóttu um skiptinám á Íslandi. Þeir fengu að vita það 3 vikum fyrir brottför að þeir höfðu fengið úthlutað sama háskólanum á Íslandi, og hittust fyrst á flugvellinum á leið til landsins. Þeir höfðu báðir haft mestan áhuga á Kanada, Íslandi og Noregi, en þar sem mikil aðsókn er í skiptinemapláss í háskólum í Kanada, og fá námspláss í boði, varð það úr að þeir völdu Ísland og H.A. – aðallega vegna þess að hér eru kenndir áfangar, á ensku, sem samræmdust námsbraut þeirra í Finnlandi. Eetu fannst einnig skipta máli að geta átt kost á að vera hér 2 annir, en í Kanada hafi bara verið í boði að dvelja eina önn, sökum gífurlegrar aðsóknar. Öll eru þau sammála um að hófleg stærð Akureyrarbæjar skipti miklu máli, þeim finnst mjög gott að búa hérna – fólkið er vinalegt, umhverfið er öruggt, auk þess sem ekki fer mikill tími eða kostnaður í ferðir á milli staða. Jaarko furðar sig t.d. á því hvað það eru margir nemendur sem eiga og reka bíl, þegar það tekur 10-20 mínútur að ganga niður í bæ eða upp í skóla og innan við klukkutíma að ganga hring í kringum bæjarkjarnann. Sintija segir að það hafi eiginlega verið óvart að hún hafi krossað við Ísland. Hún hafi ætlað sér að fara til Grikklands en endað á því að fá samþykki hingað til lands. Hún segir þó að hún sjái alls ekki eftir því, hún sé mjög hamingjusöm og frjáls hérna – enda búin að ílengjast hér í námi á annað ár. Wibke sagði að það hafi aðallega verið hrifning hennar á tónlist íslensku hljómsveitanna Sigur Rósar og Múm, sem hafi haft áhrif á val hennar hingað til lands, þegar hún sá að Ísland var á listanum yfir lönd og háskóla sem voru í boði fyrir hana. Í gegnum tónlistarmyndböndin hafi hún fengið góða tilfinningu fyrir andrúmsloftinu á Íslandi, dulúðugri náttúru þess og langað til að kynnast því af eigin raun.  

 

Munurinn á milli heimaskóla og H.A.

Almenn ánægja ríkir á meðal þeirra varðandi nám og skipulag Háskólans á Akureyri. Kosturinn við kennsluskipulagið hér, segja þau einkum vera að kennarar hafi meiri tíma til að sinna einstökum nemendum, auk þess sem meira er um stærri verkefni og því nýtist kennslan og kennsluefnið þeim betur. Sintija bendir á að í heimaskólanum sínum tíðkast það að kennarar haldi fyrirlestra og nemendur sitji og hlusti, en hér er boðið upp á meiri tjáskipti á milli kennara og nemenda í tímum og líkar henni það mun betur og segir að það auki skilninginn á námsefninu. Wibke er á sama máli en segir enskukunnáttu sína þó há henni aðeins, enn sem komið er. Þó  krakkar byrji að læra ensku 9 ára í Þýskalandi sé ástfóstur þeirra þó mikið við þjóðtunguna – flest fjölmiðlaefni er t.d. enn talsett svo enskan er ekki eins opinber þar, eins og hérlendis. Hún er nú í inngangsáfanga í íslensku og rétt að byrja að læra fyrstu orðin, en hin hafa lokið honum og eru að hefja frekara nám, að eigin frumkvæði, á vegum Margvíss ehf.. Jarkko segist vera mjög hrifinn af íslenskri tungu, og því vill hann halda áfram að læra, „it´s a fascinating language, very old and has changed little through time and kept it´s grammar and style“. Að auki nefnir hann, bæði í gamni og alvöru, að það sé ansi „cool“ að geta sett á CV-ið sitt að hann kunni jafn sjaldgæft tungumál og íslensku.

Þau eru öll sammála um að verð á helstu neysluvörum, hér á Íslandi í dag, sé sambærilegt við heimalönd sín. Jaarko, Eetu og Wibke minnast þó á verðmun máltíða milli heimaskóla síns og Háskólans á Akureyri, en það er rúmlega helmingi ódýrara að kaupa sér hádegismat í skólunum heima - ástæðan er sú að matur í finnskum og þýskum háskólum er niðurgreiddur af ríkinu. Engu að síður velja þau oft að borða í matsalnum til að auka næringarlega fjölbreytni.

 

 

Félagslíf, menning og umhverfi

Wibke er enn „að lenda“ svo hún hefur ekki tekið mikinn þátt í félagslífinu, en hin eru öll sammála um að félagslífið við H.A. sé frekar öflugt miðað við heimaskólana. Þeim líkar best við vísindaferðirnar, sprellmótið og pub-quiz kvöldin á Kaffi Amour, en síður við keimlíkar drykkjuskemmtanir á Kaffi Akureyri. Þau hafa verið dugleg við að leigja sér bílaleigubíla og fjölmenna í ferðalög um landið, auk þess sem þau hafi farið í skemmtilegar náttúruvísindaferðir tengdum kúrsinum Icelandic nature, og nefna ferð til Öskju og hvalaskoðunarferð, sem dæmi. Fyrirhuguð er einmitt ferð, nú um páskana, sem þau eru að skipuleggja saman til Vestfjarða og nágrennis. Þeim líður almennt mjög vel hérna, bæði hvað varðar námið í H.A. og búsetu á Akureyri og segjast ekki vera haldin mikilli heimþrá. Jarkko kemur blaðamanni til að hlæja, þegar hann er spurður um hvað það er helst sem hann sakni frá heimalandinu og hann svarar hiklaust „fast and reliable internet connection!“, en eins og nemendur vita getur netsamband háskólans verið frekar óstöðugt og seinvirkt á köflum.

Að lokum spurði ég þau út í hvort þau myndu mæla með námsdvöl á Íslandi, og þá við Háskólann á Akureyri, við nemendur í heimaskólum sínum. Sintija segist hiklaust myndi mæla með því, hér sé friðsælt og öruggt að búa og fólkið er vinalegt, jákvætt og opið. Heima í Lettlandi er allt svo breytt frá því sem áður var. Nú er fólk þrúgað af kreppunni, sem er mjög slæm þar miðað við hérlendis, ungt fólk flýr landið í leit að nýjum tækifærum í námi og vinnu og því sé það frábært tækifæri að hafa kost á því að koma hingað. Hún segir að það sé ekki líklegt að hún muni snúa aftur til Lettlands að loknu námi, því það sé heldur fátækleg framtíð sem bíði hennar. Þar fyrir utan hefur dvöl hennar hér á Íslandi breytt heimsmynd hennar, svo það yrði erfitt að hefja búsetu aftur í Lettlandi. Hún er að hugsa um að halda áfram í námi, ef tækifæri býðst, og segir að kannski komi til greina að prófa Grænland næst. Wibke er mjög jákvæð út í veru sína hér, þessar fyrstu vikur, en segir þó að kuldinn sé ekki fyrir alla. Það hafi verið mjög auðvelt að koma hingað, ekkert menningarsjokk, og það sé vel staðið að skipulagsmálum varðandi skiptinemana, bæði heima og við háskólann hér. Jarrko og Eetu eru sammála um að þeir myndu ekki mæla með því við alla kunningja sína, og kallaði sú afstaða þeirra á frekari útskýringar. Eetu segist myndu mæla með því við suma vini sína en bendir á að hann hafi vissar áhyggjur af ótryggum horfum í efnahagslífinu hér á landi. Jarkko segir að hann myndi ekki mæla með því , við marga af vinum sínum, og það sé aðallega vegna þess að „they don´t deserve to come here, they don´t appreciate the nature, food, language and mountains“, og glottir strákslega, svo blaðamaður getur ekki annað en brosað.

Það var mjög skemmtilegt að spjalla við þau, og ljóst er að Rúnar hefur hitt naglann á höfuðið þegar hann segir að skiptinemum líði almennt mjög vel hérna, bæði í námi og einkalífi. Þeir setja svo sannarlega fjölþjóðlegan blæ á háskólann og við, hinir íslensku nemendur, mættum vera ánægð með að fá tækifæri til að kynnast þeim – og það er kjörið tækifæri að gefa sig á tal við þá skiptinema sem eru með okkur í kúrsum, fá innsýn í aðra menningarheima og æfa okkur um leið í ensku talmáli.


- Martha Elena Laxdal


Heimildir

  • http://dagskra.ruv.is/ras1/4517429/2010/01/26/2/
  • http://www.unak.is/forsida/news/fjolgun_skiptinema_vid_ha_vekur_athygli/

  • http://www.unak.is/forsida/news/mottaka_skiptinema_og_undirbuningur_skiptinams/Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir