Framleiđir ekki piparkökur

Smári Hallmar

Bjórbruggun er áhugamál sem fer sífellt stækkandi á Íslandi í dag.  Blaðamaður Landspóstsins settist niður með heimabruggara um helgina og ræddi við hann um aðferðir, ferli og hættur bak við heimabruggun.

- „Bjórbruggun er fyrst og fremst áhugamál,“segir Smári Hallmar Ragnarsson skagfirskur heimabruggari, vélvirki og bjórunnandi.

Upphaflega hafði Smári hugsað sér að græða með því að brugga sinn eigin bjór sjálfur. Fljótlega áttaði hann sig á því að sú yrði ekki raunin heldur breyttist þetta fljótlega í hið fullkomna áhugamál. Smári bruggar að meðaltali 18 lítra í einni lögn, á eins til tveggja mánaða fresti. Að baki hverrar bruggunar liggja c.a fimmtán klukkutímar af vinnu og miklar pælingar. Þá er með talið þrif á flöskum, bruggdagurinn sjálfur og átöppun. Smári segir tilganginn vera að fræðast, sinna áhugamáli og ekki síst til að gleðja og gefa vinum og kunningjum.

Ferlið

Smári segir að hráefnin í bjórbruggun séu í raun og veru sömu svipuð þeim sem þarf í bakstur. Allir bjórar eru í grunninn vatn, korn, ger og humlar. Ferlið lýsir sér í stuttu máli að byrjað er að meskja kornið. Kornið er sett í vatn sem er hitað upp í 63 – 69 gráður, þar meskjast kornið í 60 – 90 mínútur. Við þetta hitastig leysast réttu sykrurnar úr korninu. Bæði hitinn og tíminn fer eftir því hvaða tegund bjórs er verið að brugga. Því næst er kornið tekið upp úr vökvanum sem eftir er, sem þá orðinn að nokkurskonar sykurvatni. Sykurvatnið er þá soðið í 60 – 90 mínútur og humlum bætt út í. Hvernig humlum er bætt við og í hvað langan tíma fer einnig eftir tegund bjórsins. Humlarnir gefa beiskju sem vegur upp á móti sætunni úr korninu. Því næst er vökvinn kældur niður að gerjunarhitastigi og gerinu bætt út í. Þá hefst gerjunin, sem getur staðið yfir í 14 daga og allt upp í 30. Rétt og stöðugt gerjunarhitastig skiptir mikli máli. Það hitastig getur rokkað eftir tegundum, til dæmir eru lagerbjórar gerjaðir fyrir neðan 15 gráður og öl við 15 – 20. Eftir gerjunarferlið er bjórnum tappað á kút eða flöskur, þegar átöppunin hefst er bjórinn kolsýrður. Til þess eru til tvær aðferðir. Annað hvort er bætt ákveðnu magni af sykri út í bjórinn áður en honum er tappað á flöskur. Við það borðar restin af gerinu sykurinn og „prumpar“ kolsýru. Eða þá að bjórinn er settur á kút og þá er kolsýru skotið í bjórinn. Eftir átöppun er bjórnum leyft að þroskast í kútum eða flöskum í ákveðinn tíma, sem getur verið frá 14 dögum upp í einhverja mánuði. Smári leggur mikla áherslu á að hreinlæti sé númer eitt, tvö og þrjú. Allt sem getur komist í snertingu við bjórinn eftir suður þarf að sótthreinsa svo ekkert fari úrskeiðis.


Áhöld

Smári telur tvær aðferðir við að brugga bjór algengastar. Annars vegar BIAB (brew in a bag) og hins vegar þriggja potta kerfi. Smári notast við BIAB, það er tiltölulega auðvelt í notkun og þægilegt. Kornið er einfaldlega sett í strigapoka og pokinn látin ofan í ílát fullt af vatni, þar sem fer meskingin fram. Því næst er pokinn tekin uppúr og vökvinn sem eftir verður er soðinn. Vökvinn er fluttur í aðra fötu þar sem gerjunin fer fram. Ýmis grunnáhöld eru notuð. Til dæmis er notað hævert til að flytja vökvann á milli og sykurflotvog sem mælir sykurmagn vökvans fyrir og eftir gerjun. Einmitt það hlutfall segir til um áfengismagn bjórsins. Hitamæli þarf ávallt að hafa við höndina að ógleymdum hreinsiefnum, mikið er notast við joðfor og klór. Hægt er að kaupa startpakka til bjórgerðar hjá Ámunni, vínkjallaranum og hjá brew.is þar sem Smári keypti sinn pakka og er mjög sáttur með.

Kostnaður

Smári segir kostnaðinn ekki mikinn. Hann telur að kostnaður á hverja flösku sé um 80-90 krónur. En bjórarnir sem Smári hefur hingað til bruggað kosta frá 300 og allt upp í 900 krónur í ríkinu. Startpakkar er mis dýrir, til dæmis keypti Smári startpakka að andvirði 28.000,-

Áhætta?

Það sem blaðamann langaði að vita, og eflaust fleiri velta fyrir sér, er hvort að bruggun sé hættuleg og yfirhöfuð lögleg?

Smári vill koma því á framfæri að bruggun bjórs og eiming vínanda tengist á engan hátt. Aðferðirnar eru gerólíkar og ólíkt bjórbruggun getur eiming verið skaðleg. Hann segir bjórbruggun hættulausa. „Það er ómögulegt að gera bjór hættulegan, hann verður í versta falli vondur á bragðið,“ segir Smári.

Í lögum margra landa, meðal annars nágrannaþjóðum Íslands er það sérstaklega tekið fram að heimabruggun til einkanota sé leyfileg innan ákveðinna marka. Þetta finnst Smára vanta í íslensk lög, í þeim er einungis tilgreint að framleiðsla áfengis yfir 2,25% alc sé bönnuð nema með tilskyldu leyfi. En er þetta þá raunverulega löglegt? „Ég er engan vegin að framleiða bjór, rétt eins og ég framleiði ekki piparkökurnar sem ég baka fyrir jólin“. Svarar Smári sannfærandi.

Í lokin bendir Smári á fágun.is (félag áhugamanna um gerjun) þar sem áhugaverðar umræður um bjórbruggun er að finna, og á brew.isþar sem finna má leiðbeiningar og fleira fyrir byrjendur.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir