Friður og ró

Amtsbókasafnið. Mynd/Akureyri.is
Það er mörgum mikilvægt að komast í skjól frá amstri dagsins og finna sér griðastað. Mismunandi er hvað einkennir slíka griðastaði en fyrir mig persónulega er það ró og næði. 

Eftir að ég fluttist til Akureyrar þurfti ég að finna mér slíkan stað hér í bæ og voru þá góð ráð dýr. Hvar væri staður utan heimilisins sem uppfyllti þessar kröfur.

Fyrir mig dugði fátt annað en elsta stofnun Akureyrar, Amtsbókasafnið. Í ár á það 185 ára afmæli undir því nafni og hefur verið í núverandi húsnæði frá árinu 1968. Þar má finna allskyns bækur fyrir alla aldurshópa og friðurinn í lesstofunum hefur verið til fyrirmyndar í þau skipti sem ég hef verið þar. Starfsfólkið er ljúft og alltaf tilbúið í að aðstoða við leit að einhverjum sérstökum bókum. Fyrir þá sem hafa lögheimili á Akureyri fæst fyrsta ársskírteini endurgjaldslaust en utanbæjarfólk líkt og ég greiðir litlar 2000 krónur.

Bókasafnið er barnvænt og gaman er að sitja og fylgjast með fólki sem kemur með lítil börn sín og kynnir þau fyrir leyndardómum bókmenntana.

Það er hollt og gott fyrir andann og ímyndunaraflið að sökkva sig ofan í góða bók og hverfa pínulítið frá hinum raunverulega heimi. Að breyta til í lesefninu og skipta út skólabókum fyrir almennan lestur er meinhollt. Þar sem lestur er áhugamál á undanhaldi hvet ég alla til þess að kynna sér þau bókasöfn sem eru fólki næst og athuga hvort það finni ekki friðinn sem annað slagið reynist nauðsynlegur.

Ingvar Björn Guðlaugsson


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir