Frumlegt bollukaffi

Gleðibolla ársins, Babúsku-baileysbollan

,,Við erum dugleg að bjóða fólki til okkar í kaffi. Okkur datt því í hug að bjóða í bollukaffi sem fyrst var ekkert svo stór,”segir gestgjafinn Ásdís Ármannsdóttir um bollukaffið sem hún og maðurinn hennar hafa boðið vinum sínum í síðan 2009. Í bollukaffinu er ekki eingöngu boðið uppá hinar hefðbundnu vatnsdeigsbollur með rjóma heldur má ávallt finna frumlegar og framúrstefnulegar bollublöndur sem gestgjafarnir hafa lagt mikla vinnu í að undirbúa. Síðastliðin ár hefur verið boðið uppá mokkabollur, origanobriebollur, nutellabollur og rommkúlubollur svo eitthvað sé nefnt.

Hugsa um bollur allt árið 

Í ár bökuðu Ásdís og Helgi fimmhundruð bollur og þar af tíu sortir. Það var hægt að smakka á salthnetukaramellubollum, límonubollum, daimísbollum, bananasítrónubollum með súkkulaði, laxakæfubollum, babúsku-Baileysbollum, sænskum möndlubollum, vanillubollum, bollum með skinku og osti og vatnsdeigsbollum með sultu og rjóma. ,,Þetta bara vatt upp á sig og bollurnar og tegundirnar urðu fleiri og fleiri,”segir Ásdís. Hún segir að hún og maðurinn hennar hugsi svolítið um bollur allt árið. ,,Við reynum að fá einhverjar góðar hugmyndir héðan og þaðan. Ef við smökkum góða köku eða búum til góðan eftirrétt þá reynum við að útfæra það í bollu. Svo höfum við verið með einhverjar ósætar bollur á hverju ári.”

Gestirnir bjóða gleðileg jól 

Bollukaffið er orðið ómissandi hjá vinhópnum.“Þetta er orðið að algjörri hefð. Gestirnir bjóða gleðileg jól þegar þeir mæta í veisluna því þetta eru náttúrulega jólin fyrir okkur,"segir Ásdís. ,,Við eigum enga fjölskyldu í Reykjavík en gamlir félagar okkur úr Háskólakórnum, sem nú kalla sig Gleðikórinn, eru nokkurs konar fjölskylda okkar í borginni og mæta þau í þessa veislu.” Einn bolluboðsgesturinn stendur yfirleitt fyrir kosningu um bollu ársins og gleðibollu ársins. Í ár var það salthnetukaramellubollan sem var þess heiðurs aðnjótandi að vera bolla ársins. Gleðibolla ársins var babúsku-baileysbollan. Daimísbollan hefur tvisvar sinnum verið bolla ársins og er hún alltaf með í þessu frumlega og skemmtilega bollukaffi.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir