Frystum eignir auðmanna!

Serious Fraud Office er stofnun í Englandi og eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða stofnun sem tekur á stórum svika og glæpamálum. Allt of lítið hefur verið rætt um þessa stofnun í fjölmiðlum hér á íslandi, helst er það þó fréttaritarinn Sigrún Davíðsdóttir hjá speglinum sem hefur bent á stofnunina og hvað hún er fær um.  Serious Fraud Office  eða SFO var stofnuð til þess að rannsaka mál þar sem allverulegar upphæðir koma við sögu, málin sem stofnunin rannsakar eru ávallt mjög flókin og rannsakar stofnunin til að mynda aðeins mál þar sem að grunur leikur á að svikin nemi hærri upphæð en milljón pund, eða sem samsvarar rúmlega 206 milljónum íslenskra króna. Málin snúast alloft um hvítflibbaglæpi.

Á heimasíðu SFO er það tekið fram að stofnunin sé tilbúin til að aðstoða við erlendar rannsóknir mála, hún getur gert mikið fyrir erlenda aðila svo sem yfirheyrt fólk, framkvæmt húsleitir, rakið bankafærslur, leitað uppi og fryst –já fryst eignir. Það eina sem erlent ríki þarf að gera óski þeir aðstoðar SFO er að láta þá vita að rannsókn sé hafin hér heima fyrir á einhverju sem talið er glæpsamlegt. Það þarf ekki einu sinni að vera búið að ákæra. Það skýtur því skökku við að íslenska ríkið hafi ekki nýtt sér slík boð af hálfu SFO.

Ansi margt í íslensku viðskiptalífi undanfarin ár er væntanlega í rannsókn og hljóta menn að gruna margan útrásarvíkinginn um græsku, það er nokkuð ljóst að margt hlýtur að vera glæpsamlegt sem hér hefur átt sér stað og margt gruggugt væntanlega tengst peningabraski á Englandi og ríkjum undir bresku krúnunni svo sem á Tortillaeyjum. Af hverju í ósköpunum höfum við ekki nýtt okkur þessa leið? SFO hefur meira að segja boðið fram aðstoð sína að sögn The Telegraph í kjölfar þess að lánaskýrslur Kaupþings láku á vefsíðuna wikileaks.org. Þeir hafa jafnframt hafið sína eigin rannsókn á hruni bankanna, það eina sem virðist vanta uppá er beiðni íslenska ríkisins um frystingu eigna.

 SFO hefur áður hjálpað ríkjum við rannsóknir mála og til að mynda hefur bandaríska dómsmálaráðuneytið sannreynt það að mikil hjálp er í SFO, nýleg dæmi um það eru málin gegn  Sir Allen Stanford og svikahrappsins Bernard Madoffs. Í máli Stanford liðu einungis 5 klukkustundir frá því að bandarískir dómsólar báðu um frystingu eigna hans og þangað til að allar hans eignir voru frystar. Það sama var uppá teningnum í máli Madoffs, það þurfti einungis beiðni um frystingu eigna þar sem rannsókn væri hafin. Enn og aftur, af hverju í ósköpunum höfum við ekki óskað eftir samskonar aðgerðum? Rannsókn er jú hafin þar sem  grunur leikur á glæpsamlegum athæfum með afar flóknu neti krosseignatengsla og peningaflæðis erlendis.

Í frétt sem The Telegraph birti nú í vor kemur fram að Sérfræðingar SFO hafa haft samband við Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara bankahrunsins. Þann 13. ágúst nýliðinn segir Eva Joly í viðtali við Vísi að íslendingar verði að sýna þolinmæði því ekki gangi að kalla eftir frystingum eigna auðmanna sem til rannsókna séu. „Það er ekki hægt að byrja á því að frysta eignir fólks, fyrst verður að sanna glæpsamlega hegðun þess. Þetta er ekki takki sem hægt er að ýta á, það er mjög flókið að ákveða hvort og hvenær á að beita þessu tæki. Almenningur verður að sýna umburðarlyndi og þolinmæði,"  Hvers vegna í ósköpunum Eva Joly?  Taka skal það fram að Eva Joly átti að funda með forstjóra SFO núna í byrjun september. Við skulum vona það besta.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir