Öðruvísi frétt

Þessar eru kannski á heimleið?

Finnur og Sigrún eru komin!
Þetta heyrði ég í fréttum í gærdag.
Þetta var svolítið öðruvísi frétt,

og af því það það var Broddi Broddason, með sína dimmu rödd sem sagði frá þessu í síðdegisfréttum á Ríkis-Rás I, sem ég hlusta helst alltaf á,  þá staðnæmdist ég þar sem ég var stödd og hlustaði betur, stundum er maður að hlusta og þetta fer inn um annað eyrað og út um hitt og oft situr lítið eftir.

En eins og áður sagði var þetta einhvern veginn allt öðruvísi en að heyra um hrun banka, svindl hjá útrásarvíkingum að ég tali nú ekki um úrslit prófkjöra og alla þessa umræðu um pólitík aftur á bak og áfram og svo er allt einhvern veginn tekið úr sambandi við aðalatriðin og umræðan hverfist bara um einhver smáatriði sem eru svo blásin út og jafnvel rifist um dag eftir dag.


Ég beið sem sagt  eftir nánari útskýringu á þessari frekar vinalegu frétt. Og auðvitað kom að því, en ekki fyrr en  alveg í lok fréttatímans, það besta geymt þar til síðast.  Þessi hjónaleysi, eins og ég var bara farin að ímynda mér, þetta var næstum eins og eitthvað væri að ske  hjá Jóni og Gunnu í næsta húsi,  eruálftir,  já ég segi og skrifa álftir (sem kvaka eins og segir í ljóðinu).  Skýringin er að þau, Finnur og Sigrún ,eru fyrstu álftirnar sem koma til landsins nú í vor en fleiri eru á leiðinni.  Gerfihnattasendar hafa verið settir á tæplega fjörutíu álftir í vetur og verður hægt að fylgjast með þeim á sérstökum vef. http://whooper.wwt.org.uk/whooper/full-map


Þessum senda- álftum er oftast gefið nafn, líklega til að geta áttað sig betur á ferðalögum hverra fyrir sig.  Finnur kom að landi á Mýrunum austur í Hornafirði, auðvitað er suð-austur hornið næst útlöndunum, eins og Bretlandseyjum, hann skrapp svo í austur átt,  upp í Lón, sem er fyrir austan Almannaskarð en kom svo aftur til baka á Mýrarnar.  Sigrún kom hins vegar að landi í Öræfunum en hélt svo áleiðis til vesturs og er nú stödd í nágrenni Hellu.   Nokkrar fleiri álftir eru lagðar af stað norður eftir Bretlandi, því að flestar íslenskar álftir dvelja þar yfir vetrarmánuðina, og ef allt fer vel þá ættu þær að fara að sjást hér á landi  á næstu vikum.  


Gott að vita þetta og geta fylgst svona vel með og það hlýtur að vera gaman að vera þarna suð-austur frá og verða kannski vitni að komu þeirra.  Enda er fólk beðið um að senda upplýsingar ef það sér þessar álftir og hefur á huga á þessu verkefni Náttúrufræðistofnunar.


Það má til gamans segja frá nöfnunum á þessum ágætu álftum: 
“Nafnið Sigrún kemur fyrir í Helgakviðu Hundingsbana II.  Högni var konungur er átti dóttur er Sigrúnu hét.  Hún var valkyrja sem riðið gat loft og lög.”  Það á aldeilis við um þessa títtnefndu heiðurs álft. Ekki er það alveg svona augljóst með hann Finn.  “Nafnið kemur fyrir í Landnámu, fornsögum og fornbréfum.  Nafnið hefur verið notað á Norðurlöndunum, og í Þýskalandi og á Englandi hefur nafninu Finn slegið saman við írsk-gelíska nafnmynd í merkingunni “hvítur””.  Þar gæti einhver skyldleiki verið? 
En hvað um það þetta er skemmtilega öðruvísi frétt og það sem ekki er verra að hún minnir líka svo vel á vorið, það fer sennilega að koma hvað úr hverju.

Nafnaskýringar teknar úr bókinni:  Nöfn ÍslendingaAthugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir