Flýtilyklar
Gervisætur geta aukið líkur á lífstílssjúkdómum
Niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birt hefur verið í vísindatímaritinu Nature benda til þess að gervisætur geti haft slæm áhrif á heilsu fólks. Í rannsókninni eru skoðuð áhrif sakkaríns, súkralósa og aspartams á líkamann en rannsóknin sýndi fram á að neysla þessara efna geti haft í för með sér töluverða hækkun á blóðsykri öfugt við það sem áður hefur verið talið.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa vakið mikla athygli, en rannsóknin leiddi í ljós að neysla gervisætu eykur glúkósaóþol í þörmum sem svo getur leitt til hækkunar á blóðsykri. Þessi efni geta því valdið breytingum á bakteríuflóru þarmanna sem og efnaskiptum líkamans. Um 400 manns tóku þátt í rannsókninni auk þess sem hún var einnig gerð á músum. Niðurstöðurnar sýndu svipuð áhrif gervisætu á líkama músa og manna.
Lífstílstengdir sjúkdómar á borð við offitu og sykursýki 2 eru stór ógn við heilsufar fólks á vesturlöndum og hefur sjónum verið beint að sykri sem sökudólgi í þessu sambandi. Almenningur sem og matvælaframleiðendur hafa því litið til gervisæta á borð við þessar sem rannsóknin nær til og hefur neysla þeirra aukist töluvert síðustu ár. Sérstaklega hefur neysla sykurlausra gosdrykkja sem innihalda þessi efni aukist.
Niðurstöður þessara rannsóknar þykja því mjög áhugaverðar því þær ganga í berhögg við það sem hingað til hefur verið haldið fram. Þessi efni hafa hingað til verið talin skaðlaus og hefur Evrópusambandið meðal annars gefið út yfirlýsingar um skaðleysi þeirra. Ólíklegt er þó að breytingar verði gerðar á manneldisráðleggingum í kjölfar þessarar rannsóknar, fleiri rannsóknir þarf til sem styðja þessa niðurstöðu áður en það er gert.
Greinin á vef Nature:http://www.nature.com/nature/journal/vaop/ncurrent/full/nature13793.html
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir