Gleðilegt hjólasumar

Ekki hjólið mitt
Ég held svei mér þá að vorið sé komið, því grundirnar eru svo sannarlega farnar að gróa og grilllyktin hangir í loftinu. Ég hlakka mikið til sumarsins því þá ætla ég að taka fram hjólið mitt. En það get ég sagt að ekkert grín er að hjóla í umferðinni. Ég veit ekki hversu oft ég hef hætt lífi mínu á götum bæjarins þegar enginn hjólastígur er til staðar.

Ég má ekki hjóla á gangstéttinni og margir bílstjórar verða pirraðir hjóli ég á götunni. Ég hef oft verið í hættu þegar bílarnir fara aðeins of hratt og of nálægt manni. Svo er það líka annað mál að ég er á hálf bremsulausu hjóli og gírarnir eru frekar slappir þannig að spurning hvort ég þurfi ekki að láta lappa upp á fákinn áður en ég fer á ferð.

Ég hef átt 3 hjól um ævina, það lífseigasta var appelsínugula hjólið sem pabbi fékk árið 1989 á rússatogara í skiptum fyrir 10 ára gamla sláttuvél. Og eins lífseig og sláttuvélin var hjá pabba þá stóð rússahjólið góða aldeilis vaktina í 8 ár plús 4 en þá fékk litla systir það og málaði það bleikt. Aldrei notaði ég hjálm og reif ég kjaft við Jim Jim lögreglumann ef hann innti mig eftir honum. Ekkert blikkljós var á hjólinu, brotin endurskinsmerki inn í dekkjunum, hnakkurinn var laus og hægt að var snúa stýrinu í hring án þess að beygja.

Appelsínugula hjólið mitt var bremsulaust í 2 ár, ég var ekki að segja pabba frá því, fannst geðveikt að fara á blússinum niður götuna og klessa á húsið neðst í götunni. Flottast var að fara niður holtið og annað hvort þá að stoppa sig á Kaupfélagsveggnum eða þá að láta sig renna niður Eyrarveginn og út á bryggju og stoppa sig þá á ryðguðum bryggjupolla. Hjólið mitt þoldi allt og það þurfti sko að þola mikið, allir þurftu að prófa og því var ósjaldan hent niður rennibrautina á róló af stóru strákunum sem voru í keppni um það, hver gæti látið það fljúga lengst.

Já, blessað appelsínugula hjólið mitt, ég man nú ekki hvað varð að því en hvur veit nema að það sé í höndum litillar stúlku, sem fer með það í ævintýraferðir á fallegum sumardögum.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir