Góðir foreldrar fá aldrei gull

Nú standa yfir ólympíuleikar í Vancouver þar sem milljónir manna fylgjast með afreksfólki keppa í vetraríþróttum. Þrautseigja íþróttamannanna er aðdáunarverð. Þjálfun keppendanna hefur árum saman miðast við að þeir „toppi“ á þessum leikum. Hinir bestu komast á verðlaunapall og hinir albestu hampa gullinu. Það hlýtur að vera stórkoslegt að koma heim með gullmedalíu frá ólympíuleikunum. Gullið segir að maður hafi staðið sig betur en allir aðrir.

Að ætla sér að ná frábærum árangri í því að vera foreldri en hins vegar ekki minni kúnst en sú að henda sér fram af skíðastökkpalli eða hlaupa hring eftir hring á skautum. En munurinn á bestu foreldrunum og besta íþróttafólkinu er hins vegar sá að hvorki eru gullmedalíur né bikarar í boði fyrir góða foreldra . Þar er þó vissulega í boði umbun, andleg fullnægja, gleði yfir því að sjá ungviði sitt dafna, þroskast og springa út. En engir bikarar. Enginn verðlaunapallur. Engin móttökunefnd bíður bestu foreldranna í Leifsstöð. Enginn spilar þjóðsönginn fyrir þá sem eru albestir við börnin sín.

Fólk um allan heim spyr sig nú þeirrar spurningar hvernig það gat gerst að íslenskir alþýðumenn töpuðu sjálfum sér, fjölskyldm sínum og þjóðarhagnum gervöllum í  einhverju mesta fjárhagsbulli allra tíma. Fólk spyr hvernig venjulegir íslenskir foreldrar, komnir af venjulegum bændum, húsmæðrum og sjómönnum, gátu villst jafnilla af leið og raunin varð. Var það vonin um gullmedalíu, vonin um sögulegan minnisvarða sem brjálaði bissnessmennina okkar, stjórnmálamennina okkar og embættismennina okkar? Var þeim ekki nóg að gleðjast yfir vexti eigin fjölskyldna, var þeim ekki nóg að njóta þess að sjá ungviði sitt dafna, þroskast og springa út?

Sumir útrásarvíkinganna eru landflótta núna, eflaust ógeðslega ríkir, en landflótta eigi að síður. Og hvað skyldu börnin þeirra segja við því? Hefðu börn hinna landflótta auðmanna ekki frekar viljað búa áfram á gamla Íslandinu, hefðu þau ekki frekar viljað eiga áfram gömlu vinina sína, hvað sem öllum peningum v iðvíkur? Hefðu blessuð börnin ekki frekar viljað að pabbarnir þeirra hefðu verið heima hjá þeim á kvöldin í stað þess að vera sífellt að kaupa fyrirtæki? Vilja ekki öll börn um allan heim helst eiga foreldra sem eru heima þegar á þarf að halda, foreldra með hlý hálsakot?

Það er orðið of seint fyrir íslensku útrásarvíkingana að átta sig á að hin mestu verðmæti í lífinu munu aldrei metin á verðlaunapöllum eða í beinhörðu gulli. En við sem eftir sitjum í rústunum af Íslandi eigum þess enn kost að hætta nú að öfundast út í ógæfufólkið sem hleypti hér öllu í bál og brand. Frá og með deginum í dag gætum við hins vegar sameinast í keppni um að koma betur fram við börnin okkar. Því sennilega er það þannig að sá sem finnur gleðina í hjartanu sínu þarf engan verðlaunapall. Góðir foreldrar fá aldrei gull og enginn fylgist með þeim í sjónvarpinu.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir