Hæfileikabúnt úr grunnskólum Akureyrar setja upp söngleik

Það var líflegt um að litast í Rósenborg um helgina en þar var samankominn um 50 manna hópur nemenda úr 8. - 10. bekk sem var að leggja lokahönd á æfingar fyrir söngleikinn Jesus Christ Superstar. Um samstarfsverkefni milli Akureyrarkirkju og grunnskóla Akureyrar er að ræða og þá kemur Leikfélag Akureyrar einnig að verkefninu með því að lána þeim húsnæðið í Rýminu undir sýningar. Það eru þær systur Hlín og Hildur Eir Bolladætur sem stýra verkefninu en Hildur Eir hafði lengi gengið með þann draum í maganum að setja upp söngleik með unglingunum í Æskulýðsstarfi kirkjunnar. „Þegar ég nefndi þessa hugmynd við hana Hlín í haust þá áttuðum við okkur á því að við gætum lagt saman krafta okkar þar sem hún átti að sjá um leiklistarval fyrir grunnskólana í vetur. Það varð náttúrulega til þess að að við vorum komin með ennþá stærri hóp og gátum fyrir vikið sett upp enn veglegri sýningu.‟


Léttgeggjun að ráðast í þetta verkefni

Leikkonan Þóra Karítas Árnadóttir var fengin til þess að leikstýra verkinu, Guðrún Huld Gunnarsdóttir til að sjá um útfærslu á dansatriðum og söngkonan Þórhildur Örvarsdóttir tók að að sér að sjá um tónlistarstjórn þrátt fyrir efasemdir í byrjun um að krakkarnir myndu ráða við jafn krefjandi verkefni. „Þórhildi fannst ég nú vera dálítið léttgeggjuð að ætla að setja upp Jesus Christ Superstar með óreyndum unglingum og benti mér á að meira að segja 3. árs leiklistarnemar forðuðust verkið þar sem það þætti of krefjandi sönglega séð‟ segir Hildur Eir hlæjandi. „En þau eru alveg ótrúleg hæfileikabúnt þessir krakkar og hafa verið að gera þetta af fullum krafti og nú eru þau farin að syngja og dansa eins og þau hafi aldrei gert neitt annað.‟


Æft á hverjum degi fram að frumsýningu

Eins og áður sagði þá er það stór hópur sem kemur að sýningunni eða um 50 manns en þau taka þátt í sýningunni með einum eða öðrum hætti. Þau sem ekki vilja leika eða syngja sjá um tæknimál, smink eða búninga en krakkarnir hafa fengið aðstoð við búingahönnunina á Punktinum. Auglýsingaveggspjaldið var hannað af Axeli Gústavssyni, 13 ára gömlum nemenda úr Brekkuskóla, en hann fer einnig með hlutverk Símons í sýningunni. Þetta er í fyrsta sinn sem hann kemur fram opinberlega til að syngja og leika og því ekki laust við að spenningurinn sé farinn að magnast upp fyrir frumsýninguna. Þau Haraldur Haraldsson nemandi úr 10. bekk í Oddeyrarskóla og Herdís Þorvaldsdóttir úr 10. bekk í Síðuskóla fara með hlutverk Jesú Krists og Maríu Magdalenu en þau hafa bæði töluverða reynslu af því að koma fram og hafa til að mynda tekið þátt í Samfés seinustu tvö árin. Þau segjast bæði vera full tilhlökkunar til að sýna afrakstur æfinga seinustu mánuða „Við erum búin að vera að vinna í þessu síðan fyrir jól en þá byrjuðum við að æfa stóra hópsöngva og æfðum okkur í því að koma fram fyrir framan aðra. Hópurinn var mjög stór til að byrja með en síðan hefur hann minnkað þannig að þeir sem hafa virkilegan áhuga eru eftir. Núna eru æfingar á hverjum einasta degi þannig að vonandi getum við boðið upp á flotta og vel æfða sýningu í næstu viku.‟ Frumsýnt verður í Rýminu þann 27. mars kl. 20:00 en önnur sýning verður haldið kvöldið eftir þann 28. mars. Miðaverð er 1500.- en það er frítt inn fyrir 12 ára og yngri.Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir