Hættum að röfla og elskum friðinn

Úr myndasafni google

Undanfarið hef ég orðið vör við vaxandi meting, pirring og almennt skilningsleysi  á milli landshluta, svo mikið að það jaðrar við fordóma. Skiptingin hefur þá að mestu leyti verið höfurborgarsvæðið vs. landsbyggðin.

 Er mikill snjór í Reykjavík ? Er réttlætanlegt að bora Vaðlaheiðargöng á meðan fleiri myndu nýta sér breikkun vega á suðvesturhorninu? Hvor hluti þjóðarinnar framleiðir meira? Og svona mætti lengi telja, þetta fer bara svo í taugarnar á mér að ég nenni því ekki.

 Hvenær er mikill snjór mikill snjór? Þessu er auðvelt að svar. Þegar snjór er meiri en gengur og gerist á ákveðnu svæði, á ákveðnum tíma,  þá er það mikill snjór. Þegar rætt er um vælið í Reykvíkingum yfir snjónum held ég að fólk gleymi að setja sig í þær aðstæður. Mjög víða eru götur þrengri. Fleira fólk sem þarf að komast leiðar sinnar, oft á tíðum lengri vegalengdir sem þarf að fara frá heimili til vinnu eða í skóla. Þeir sem hafa búið í Reykjavík hafa flestir einhverjar Hryllingssögur að segja um vetrarakstur þar. Við búum ekki öll á sama stað, aðstæður  og veðurlag er einfaldlega ekki eins á milli staða.

Hver framleiðir meira? Jú vissulega er það landsbyggðin sem framleiðir meira af sjávar- og landbúnaðar afurðum en höfuðborgarsvæðið. Á móti kemur að menning og listir er orðin stór partur af útfluttningi Íslendinga og verður að viðurkennast að vagga þess “iðnaðar „ er í Reykjavík.

Öryggi á vegum og stórframkvæmdir varðandi vegagerð er síðan enn eitt þrætueplið. Ég er persónulega hlynnt þvíð bora skuli Vaðlaheiðargöng en finnst að það eigi ekki að vera í einkaframtaki heldur eðlileg framkvæmd á vegaáætlun. Það ætti breikkun fjölfarinna vega einnig að vera. Hinsvegar held ég að höfuðborgarbúar átti sig ekki endilega á þeim vegalengdum sem sum okkar úti á landi þurfum að aka til þess að nálgast grunnþjónustu, tala nú ekki um ef slys eða bráðaveikindi ber að höndum. Þá skiptir öllu máli að komast hratt og örugglega á milli staða.

Alþingismenn og ríkisstjórn hafa sætt gagnrýni fyrir að vinna ekki saman og stunda skotgrafapólitík. Síðustu misseri hefur mér fundist þjóðin vera á nákvæmlega sama plani . Við erum ekki mörg á þessu landi, við náum varla sambærilegum fjölda og sæmilegt hverfi  í stórborg. Þess vegna er svo mikilvægt að við vinnum saman, setjum okkur í spor annarra og sýnum hverju öðru skilning. Annars komumst við aldrei upp úr því  fjármála- og menningarlega skítafeni sem við erum lent í.

Hættum að röfla, elskum friðinn og hugsum í lausnum.

 

Oddný Björg Rafnsdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir