Hamagangur og Hópefli

Sumarfjör! Mynd: Sigurbjörg Harðardóttir
Síðastliðið sumar átti yndislega móðir mín afmæli. Þar sem þetta var stór afmæli ákvað hún að bjóða systkinum sínum og afkomendum þeirra í gott partý. Míní ættarmót. Til að gera langa og stórskemmtilega sögu stutta þá var ég sett í það að vera leikjastjóri. 
Ég eyddi mörgum dögum í að finna skemmtilega leiki til að hrista fólk saman.Mig langaði því að deila með ykkur leikjunum, það er að segja frá þeim leikjum sem flestir höfðu ekki tekið þátt í áður eða eru með smá tvisti.
Við vorum þónokkuð mörg og því fannst mér tilvalið í að skipta í lið og til að gera það enn skemmtilegra byrjuðu herlegheitin á þessum leik.  
Leikur:
 1. Blöðruleikur. 
Myndar liðin. Jafnmargar blöðrur og leikmenn eru margir. Blöðrurnar eru þó í mismunandi litum því hver litur myndar lið. (Þau voru um 30 sem tóku þátt og því var ég með 6 liti/lið og voru því 5 í hverju liði). Blása svo allir upp blöðruna sína, fá spotta og binda blöðruna við annan hvorn ökklann á sér. Leikjastjóri er því næst búinn að afmarka svæði sem allir þátttakendur fara á. 
Byrjar svo hamagangurinn þar sem allir eiga areyna að sprengja blöðru hjá öðru liði. Það lið sem endar með ósprungna blöðru fær stig. Þeir sem eru með sprungna blöðru fara útaf vellinum og völlurinn minnkar jafnt og þétt.Þarna er hópurinn búin að skiptast í lið og haldast liðin út leikina, safna þau saman stigum.   

2. Stafarugl. 
Fór ég í Fimbulfamb spilið mitt (spil sem inniheldur mörg gömul íslensk orð. Hægt er að finna orð allstaðar). Fann orð sem hentaði, sem var ekki of erfitt að stafa eða að átta sig á. Skrifaði ég stafina á blöð, klippti niður og setti í mismunandi dollur. (Ég setti hvern staf ofan í sína dollu til að það yrði aðeins meiri hamagangur, en sniðugt væri að setja allt orðið ofan í eina dollu og eina dollu fyrir hvert lið). Stóðu svo liðin í hæfilegri fjarlægð og þurfti að hlaupa á milli og sækja stafi.Það lið sem var fyrst að stafa orðið rétt, fékk stig. 
Það lið sem gat sagt hvað orðið þýddi fékk bónusstig. 

3. Sykurpúðar og spaghetti. 
Byggingarleikur og mikill hópeflisleikur því allir þurfa að vera sammála. Ég var búin að útbúa poka sem inniheldur hæfilegt magn af sykurpúðum og (ósoðnu) spaghetti. Fékk hvert lið fyrir sig einn poka. Fengu þau 2 mín. til að ákveða hvernig ætti að byggja húsið, 5 mín. til að byggja húsið og þurfti svo húsið að geta staðið óstutt í 1 mín.
Taka skal fram að það þurfi að sjást í spaghetti á milli hæða til að hæðin teljist til stiga. Taldar eru þar næst hæðirnar og fæst stig fyrir hverja. Öll lið sem eiga hús sem stendur eitt og óstutt í 1 mín. fá stig.  

4. Púsl og skattejagt (fjársjóðsleit). 
Áður en leikirnir hófust var ég búin að fela dollur með smá gotterýi í í kringum völlinn þar sem leikirnir voru. Teiknaði ég á pappaspjöld, klippti niður og setti í poka. Hvert lið fékk einn poka og þegar liðið var búið að púsla máttu þau hlaupa af stað til að finna fjársjóðs"kistu". Fannst yngstu kynslóðinni þetta ekki leiðinlegt.  

Hristu þessir leikirærlega upp í hópnum og skemmtu allir sér mjög vel, hvort sem þeir tóku þátt eða horfðu á. Svindlað var "hóflega" og átti leikjastjórinn ekki erfitt með að mínusa eða bæta við stigum hjá liðunum. Var stigagjöfin sem sagt, mjög svo vísindaleg og gerð eftir ákveðnum reglum. Það er að segja eftir höfði leikjastjóra. 

Það er enginn að segja að þessir leikir eigi bara við sumarið, tilvalið er að nýta sér hugmyndirnar í jólaboðum þegar keppnisfólk kemur saman.

Góða skemmtun!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir