Hamingja mæld í peningum

Mælikvarði hamingju í góðæri

Tvær fréttir á Mbl.is í dag vekja athygli.  Önnur lýsir Íslendingum sem öfundsverðum, en hún segir frá umfjöllun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um íslenskan efnahag.  Hin fréttin er frá kjaramálaráðstefnu AFLs á Austurlandi þar sem síbylja fjölmiðla um kreppuástand var gagnrýnd og ábyrgir aðilar hvattir til að hætta gaspri um kreppu. 

Í fyrri fréttinni er sagt frá því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telji íslenska hagkerfið á erfiðum tímamótum eftir langt vaxtaskeið og hann spáir samdrætti.  Hins vegar er talið að Íslendingar standi vel sé til langs tíma litið og íslensk stjórnvöld hvött til að draga úr áhættu og grípa til ráðstafanna til að auka eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu bankanna.  Einnig er greint frá því að raungengi íslensku krónunnar sé undir jafnvægisgengi og frekari lækkun gæti aukið verðbólguþrýsting.  Þannig að niðurstaðan er sú að hemja þurfi verðbólguna til að hægt sé að lækka vexti.

Ástæða þess að ég stilli þessum fréttum upp saman er sú að mér fannst ályktunin sem samþykkt var á kjaramálaráðstefnunni um “kreppugaspur” fjölmiðla gefa svolítið sanna mynd af viðbrögðum Íslendinga þegar syrtir í álinn.  Við erum nefnilega býsna gjörn á að “stinga höfðinu í sandinn” þegar vandi steðjar að, og bíða þess að hann fari framhjá.  Við erum ekki mikið fyrir óþægindi og kannski enn síður nú þegar við erum búin að hafa það býsna gott.  Það er auðvitað ýmislegt sem manni dettur í hug til samanburðar og nefni ég hér aðeins brot.  Í góðærinu höfum við m.a. staðið frammi fyrir auknum vanda varðandi dreifingu og aðgengi að fíkniefnum og hef ég ekki séð að þjóðin hafi staðið sérstaklega saman um að koma böndum yfir það vandamál.  Okkur þykir sú umræða óþægileg, kannski sérstaklega af því að hún snýr að yngri kynslóðinni og við vitum innst inni að við erum öll ábyrg. Eins dettur mér í hug stefnuleysi þjóðarinnar í málum útlendinga þar sem hver bendir á annan, og við stöndum frammi fyrir óþægindum eins og fordómum.  Ekki viljum við vera fundin sek um fordóma.

Fjölmiðlar hafa ákveðnum skyldum að gegna með að koma upplýsingum til þjóðarinnar um það sem er að gerast og verðum við að treysta því að fréttir séu eins hlutlausar og kostur er á og að fjölmiðlarnir dragi upp mismunandi sjónarmið.  Ef staðan er sú að erfiðari tímar séu framundan þá verðum við að vera meðvituð um það og fá útskýringar á þróun mála.  Sé samdráttur í sjónmáli þarf það ekki að vera eymdin ein heldur gæti það reynst okkur hollt að draga úr neyslunni. Þótt góðæri geri lífið á ýmsan hátt einfaldara þá fylgja því líka vandamál.  Þar væri margt hægt að nefna en þó helst það að lífsgæðakapphlaupið hefur rænt okkur miklum tíma og sýn á það sem er okkur mikilvægast, umhyggju hvert fyrir öðru.  “Kreppa” gæti hugsanlega brýnt þá sýn og leitt okkur frá gerviþörfunum. Unga kynslóðin myndi græða á því. Hún myndi fljótt átta sig á því að hamingja er ekki mæld í peningum!

 

                                                                  Hlín Bolladóttir

Mynd. af netinu

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir