Háskólinn á Akureyri slítur barnskónum

Rannsóknir eru hjarta hvers háskóla. Til þess að standa undir nafni verður háskóli að vera vettvangur rannsókna sem eru viðurkenndar af vísindasamfélaginu í ritrýndum tímaritum eða bókum.

Háskólinn á Akureyri skilgreinir meðal hlutverka sinna að skapa fræðimönnum sínum umhverfi og aðstöðu til rannsókna. Lengi framan af var akademísk staða HA hinsvegar ekki sterk vegna þess hve fáar greinar fræðimenn skólans birtu í ritrýndum tímaritum.  Undanfarin ár hefur orðið mikil breyting þar á og á aðeins hálfum áratug hefur fjöldi birtra greina eftir fræðimenn HA fjórfaldast.  Auk þess er nú mun oftar vitnað til HA í hinu aþjóðlega fræðasamfélagi. 

Þessi árangur er ekki síst tilkominn vegna þess að innan háskólans eru nú starfandi fræðimenn á borð við prófessor Sigríði Halldórsdóttur sem rætt er við hér í þessari umfjöllun. Frá því að hún gekk til liðs við skólann hefur hún birt 61 ritrýnda grein sem er rúmlega þriðjungur allra þeirra ritrýndra greina sem birtar hafa verið frá heilbrigðisvísindasviði HA.

Stofnanir og atvinnuvegir 

Það er ekki bara einstaklingsframtak fræðimanna eins og Sigríðar sem hefur styrkt akademíska stöðu Háskólans á Akureyri. Umgjörð og aðstæður til fræðirannsókna hafa batnað töluvert á undanförnum árum með tilkomu ýmissa rannsóknastofnanna sem komið hefur verið á laggirnar á Akureyri.

Háskólinn á Akureyri á nú í samstarfi við níu rannsóknastofnanir. Þeirra stærst er Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri sem var stofnuð fyrir rúmum tveimur áratugum og hefur yfir að skipa 14 starfsmönnum.  RHA starfar sem sjálfstæð eining innan háskólans og sérfræðingar hennar hafa fjölbreyttan bakgrunn hvað varðar menntun og reynslu. Rannsóknir stofnunarinnar fjalla um allt frá fiski- og auðlindafræði til kennslufræði og blaðamennsku.   

Rannsóknastofnanirnar beina oft sjónum sínum að atvinnnulífinu og opinberum stofnunum frekar en að keppast við að birta strangvísindalegar fræðigreinar. Þannig eru margar skýrslur Rannsóknamiðstöðvar ferðamála ætlaðar þeim sem vinna að uppbyggingu á ferðaþjónustu og rannsóknir Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar nýtast best þeim sem starfa við sjávarútveg.

Greinum sem ekki birtast í svokölluðum ISI tímaritum (e. Institute for Scientific Information) hefur líka fjölgað verulega á nýliðnum árum. Árið 2006 birtu fræðimenn háskólans ríflega 70 slíkar greinar en fjórum árum seinna voru þær 170 talsins. 

Á vegum HA og þessara stofnana eru nú stundaðar rannsóknir á sviði heilbrigðismála, nútímafræða, viðskipta, sjávarútvegs- og kennslufræða, svo eitthvað sé nefnt. Þessi fjölbreytta starfsemi byggir að stórum hluta á því samstarfi sem Háskólinn og rannsóknastofnanirnar hafa átt við stjórnsýsluna og atvinnulífið. Þótt opinbert matskerfi á fræðistörfum meti atvinnulífsrannsóknir ekki til jafns við og ISI-vottaðar rannsóknir, skyldi ekki vanmeta þýðingu þeirra fyrir Háskólann og nærumhverfi hans.


Framtíð rannsókna við HA 

Ekki er boðið upp á doktorsnám við Háskólann á Akureyri og hefur það veikt akademíska stöðu HA mikið. Þess má geta að í Bandaríkjunum geta eingöngu þeir skólar sem útskrifa minnst 10 doktorsnema á ári kallað sig rannsóknaháskóla (e. university). Í samningi Háskólans á Akureyri við Menntamálaráðuneytið segir að Háskólinn stefni að aukinni rannsóknavirkni og áframhaldandi eflingu rannsóknarstarfs í því augnamiði að bjóða upp á doktorsnám innan fáeinna ára.

Í úttekt Ríkisendurskoðunar á háskólum Íslands frá árinu 2007 er bent á að fræðimenn HA hafi ekki sótt fjármagn til samkeppnissjóða að sama marki og aðrir skólar.  Samkvæmt samningi HA og Menntamálaráðuneytisins er stefnt að „öflugri sókn í samkeppnissjóði, innanlands sem utan”. 

Ef HA heldur áfram að efla rannsóknarstarf og fjölga birtum greinum í vísindatímaritum eins og hann hefur gert undanfarin ár er ástæða til þess að ætla að skólinn muni ná markmiðum sínum. Þegar þeim áfanga verður náð má segja að Háskólinn hafi slitið barnskónum og verði orðinn fullgildur rannsóknarháskóli.

Akureyri heppilegur rannsóknarstaður 

„Mér finnst mjög gott að hafa hátt markmið til að stefna að.  Það er mjög mikilvægt fyrir hvern háskóla að hafa einhvers konar alþjóðleg viðmið. Maður reynir að ná þeim. Þannig að ég er mjög hrifin af því að stefna hátt,“ segir Sigríður Halldórsdóttir, prófessor á heilbriðgisvísindasviði við HA, um álit sitt á stigagjöf háskóla. Nýlega kom fram að Háskóli Íslands væri á meðal 300 bestu háskóla í heiminum en HA var ekki nálægt því að komast á þann lista. „Miðað við hversu ungur og lítill háskólinn er þá finnst mér hann standa sig vel. Það má samt alltaf gera betur.“

Friðgeir Grímsson steingervingafræðingur og lektor við Háskóla Íslands er því ekki sammála að listi tímaritsins Times Higher Education skipti máli. Kröfur listans séu ekki raunhæfar fyrir íslenskt háskólasamfélag og því sé ótækt fyrir háskólana hér á landi að hafa listann að viðmiði.

Starf prófessora er þannig að um 48% starfsins er kennsla, 40% rannsóknir og 12% stjórnun. Sigríður segir að rannsóknirnar séu nauðsynlegur hluti starfsins en jafnframt skemmtilegur. „Mér hefur alltaf þótt gaman að kenna. Ég finn samt eftir því sem árin líða þá myndi ég vilja fá meira svigrúm til þess að rannsaka og skrifa. Mér finnst alveg ómissandi að hafa rannsóknarleyfi. Það er nauðsynlegt, kennarar geta dregið sig í hlé einn vetur þar sem þeir eru bara að sinna rannsóknum og fræðiskrifum.“

Akureyri er mjög góður staður til rannsókna að sögn Sigríðar. Það er ódýrara að gera rannsóknir hér heldur en t.d. í Reykavík og finnur Sigríður fyrir jákvæðara viðmóti í garð rannsókna á Akureyri. Auðvelt er líka að fá styrki til rannsókna. „Ég hef aldrei átt erfitt með að fá styrki til að gera rannsóknir, en ég er ekki að gera dýrar rannsóknir. Mér finnst líka að við eigum ekki að keppa við stærri þjóðir um rándýrar rannsóknir. Við höfum ekki efni á að gera mjög dýrar rannsóknir á okkar fámenna landi.“

Háskólar eru með matskerfi til þess að mæla afköst og styrk skóla og er þetta nokkurs konar stigakerfi. Það virkar þannig að ef þú birtir grein í til dæmis ritrýndu fræðitímariti, þá færðu fleiri stig eftir því sem tímaritið er betra og virtara. Fræðimenn fá síðan úthlutað úr sjóði, prófessorar fá til dæmis úr ritlaunasjóði, í samræmi við stigafjölda sem þeir hafa aflað sér. Sigríður er mjög ánægð með þetta hvatakerfi. „Áður en hvatakerfið kom um árið 1990 þá var mjög lítið um alþjóðlegar birtingar hjá fræðimönnum á Íslandi. Þetta hvatakerfi virkar þrátt fyrir að sumir gagnrýni það. Þetta er bara eins og að veifa gulrót framan í mann. Maður hugsar samt ekki bara um peningahvötina heldur vill maður dreifa þeirri þekkingu sem maður hefur aflað. Mér finnst síðan svo gaman að rannsaka og skrifa. Það hvetur mann líka að vita að það er mikilvægt fyrir háskólann að maður sé að rannsaka.“

Sigríður vill að HA beri sig saman við HÍ. „Það er gott að hafa einhvern til að keppa við. Jákvæð samkeppni er af hinu góða.“

Eftir 15 ár sér Sigríður fyrir sér að doktorsnám verði í boði  á öllum þremur fræðasviðum Háskólans. Á Akureyri séu um 40 manns starfandi bara á heilbrigðisvísindasviði sem komið geta að doktorsnámi. “Það að byrja með doktorsnám eflir okkur og gefur okkar nýja möguleika,“ segir Sigríður. Ennfremur sér hún fyrir sér að Háskólinn á Akureyri standi jafnfætis Háskóla Íslands.

Nemendur: 
Arnbjörg Jónsdóttir
Elín Inga Ólafsdóttir
Kristinn Björn Haraldsson
Kristján Torfi Einarsson


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir