Hefur höfuðborg Íslands ekki skyldur við alla landsmenn?

mynd: mbl.is
Enn eina ferðina er komin á flug umræðan um lokun Reykjavíkurflugvallar. Málefni þessu hefur verið velt fram og aftur í kerfinu og á meðan hefur aðstaða fyrir innanlandsflugið í Vatnsmýrinni fengið að drabbast niður, en allt svæðið er komið í sára þörf fyrir lagfæringar og endurskipulagningu. 

Til dæmis er flugstöðvarbyggingin orðin of lítil og löngu orðið tímabært að endurnýja hana. Í framkvæmdir verður tæplega ráðist nema samkomulag náist um langtímaskipulag þarna á svæðinu og augljóslega er það hvergi nærri í augsýn.

Á mbl.is í dag segir að Framkvæmdaráð Sambands sveitarfélaga á Austurlandi hafi sent frá sér ályktun þess efnis að ef borgaryfirvöld láti loka norður-suður flugbraut Reykjavíkurflugvallar árið 2016, eins og nú virðist vera á áætlun, þá sé Reykjavík þar með að afsala sér hlutverki sínu sem höfuðborg allra landsmanna.

Sjá nánar á  http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/01/25/afsalar_ser_hlutverki_hofudborgar/

Flugmálayfirvöld hafa bent á að með því að loka norður-suður braut flugvallarins verði flugvöllurinn í raun óstarfhæfur og liggur þá fyrir að innanlandsflugið verði að færa eitthvert annað.

Nú er Reykjavík höfuðborg allra Íslendinga og þangað þarf fólk að sækja ýmsa þjónustu sem greidd er af hinu opinbera, þ.e. úr sameiginlegum sjóðum okkar landsmanna. Má þar nefna auk stjórnsýslunnar, heilbrigðis- og menntamál. Reykvíkingar hafa af þessari þjónustu heilmiklar tekjur, hún skapar þeim fjölmörg störf og þeir hafa líka ýmsar tekjur af landsbyggðafólkinu sem heimsækir borgina til að sækja þangað þessa þjónustu.

Ef af því verður að innanlandsflugið verði flutt suður á Keflavíkurflugvöll, er þá ekki eðlilegast að öll þjónusta hins opinbera verði flutt þangað líka? Því ekki það? Ekki virðist borgaryfirvöldum í Reykjavík vera ljóst að það hafi í för með sér skyldur við alla landsmenn að vera höfuðborg landsins.

Borghildur Kjartansdóttir

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir