Heillandi Hulduheimur

Mynd, María Rut

Grafíski hönnuðurinn María Rut Dýrfjörð opnaði á dögunum vinnustofu inn af verlsuninni Flóru við Hafnarstræti á Akureyri. Þar er hún með til sölu púða, gjafapappír og fleira úr vörlínunni sinni Hulduheimur ásamt því að bjóða uppá grafíska þjónustu.

María hefur alltaf haft áhuga á list og hönnun og lengi blundað í henni að stíga skrefinu lengra. Árið 2010 fór hún á vorsýningu hjá Myndlistarskóla Akureyrar og heillaðist þar af verkum nemenda á grafísku brautinni og ákvað í framhaldinu að sækja um skólavist. Fékk hún inni hjá skólanum og hóf nám.

María hafði mikinn áhuga á munstrum og munsturgerð auk þess að vera með bakgrunn í textíl- og fatahönnun. Fór að svo að rannsóknarritgerð hennar á lokaári í námi fjallaði um munstur og aðferðir til þess að prenta þau á textíl. Ritgerðin var forvinna fyrir lokaverkefni hennar í skólanum, en hún hafði það að markmiði að hanna munsturlínu og útfæra fyrir textíl. 
Þegar María fór síðar að vinna að lokaverkefninu rak hún augun í plagat fyrir kvikmyndina The Great Gatsby. Myndin gerist á Art Deco tímabilinu og varð áhugi Maríu af tímabilinu, byggingarstíl húsanna, formi þeirra og línum, vakin. Lagðist hún í rannsóknarvinnu til að finna út hvaða íslensk hús væru byggð í þessum stíl.

 

Þróun Hulduheims

„Hótel Borg er sú bygging sem mörgum kemur til hugar þegar fjallað er um Art Deco hér á Íslandi og var sú fyrsta sem ég rakst á, en húsið hannaði Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins. Þegar ég fór svo að skoða aðrar byggingar eftir Guðjón heillaðist ég algjörlega af hönnun hans og stíl og fann að þarna var innblásturinn kominn.“

 

Full eldmóðs hóf María Rut að hanna munstur útfrá byggingum Guðjóns, myndaði þær og stúderaði form þeirra.

„Markmiðið var að fanga yfirbragð bygginganna frekar en byggingarnar sjálfar og því er tengingin kanski ekki augljós við fyrstu sýn. Munstrið Álfhóll er til dæmis innblásið af Þjóðleikhúsinu, en ég vinn með formin í skreytingum á þakskeggi hússins við gerð þess munsturs. Guðjón var mjög innblásinn af stuðlaberginu og fjöllum Íslands og hann trúði því að í þeim byggju álfar og huldufólk. Þannig er nafnið á munstrinu Álfhóll tilkomið en Guðjón reisti Þjóðleikhúsið sem voldugann hamar sem í byggi huldufólk og í híbýlum þeirra leyndist fegurð, skraut, ljós og ylur – allt það sem íslendingar bjuggu ekki við í sínum húsum á þessum tíma. Því má segja að á bak við hvert munstur er ákveðin saga og túlkun á tilurð húsanna og svo virðist sem munstrin öðlist nýtt líf fyrir áhorfandanum þegar hann heyrir hvað liggur að baki, en það er mjög gefandi að upplifa það með fólki.“

 

Munsturlína Maríu samanstendur af 6 munstrum í tveimur litapalettum og fékk nafnið Hulduheimur. Á útskriftarsýningunni fékk María svo góð viðbrögð og hvatningu að hún ákvað að halda áfram með verkefnið. Munstrin voru upphaflega prentuð á efni sem hafa nú verið útfærð í púða, auk þess lét hún líka prenta fjögur munstranna á gjafapappír og í bíðgerð er ýmis vöruþróun. Frá útskrift hefur hún tekið þátt í Handverkshátíðinni á Hrafnagili, opnað eigin vinnustofu og mun næst taka þátt í Handverk og hönnun í Ráðhúsinu í Reykjavík sem haldin verður helgina 13-17 nóvember.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir