Heimskt er heimalið barn

Erlendar fréttir virðast mæta afgangi hjá íslenskum sjónvarpsstöðvum, sérstaklega hjá Stöð 2.

„Ísland hefur sennilega aldrei verið háðara umheiminum jafnt í efnahagslegu, pólitísku og menningarlegu tilliti en einmitt nú.... Í ljósi þessa mætti auðveldlega gera ráð fyrir að erlendar fréttir skipuðu hærri sess í íslenskum fjölmiðlum,“ segir í erindi Rangnars Karlssonar, Valgerðar Jóhannsdóttur og Þorbjörns Broddasonar sem Ragnar flutti á Þjóðarspegi fyrir helgina.

Í rannsókn þremenninganna frá félagsvísindadeild Háskóla Íslands kemur fram að hlutfall erlendra frétta hjá RÚV er 28,2% á móti 71,8% innlendra frétta. Athygli vekur að á Stöð 2 er hlutfallið mun lægra eða aðeins 8,8% erlendra frétta á móti 91,2% innlendra frétta. Sambærileg hlutföll hjá sjónvarpsfréttastöðvum í nágrannalöndunum eru mun hærri, t.d. var þetta hlutfall í Noregi árið 2007 40% erlendar fréttir hjá NRK og 32% erlendar fréttir hjá TV2.

Í rannsókninni voru greindar erlendar fréttir í aðalfréttatímum Sjónvarpsins kl. 19 og Stöðvar 2 kl. 18:30 fyrstu vikuna í febrúar og nóvember 2011 og 2012, og fyrstu vikuna í febrúar 2013. Í kvöldfréttum Sjónvarpsins voru oftast þrjár til fimm erlendar fréttir í hverjum fréttatíma, einu sinni var aðeins ein erlend frétt og flestar voru þær sjö talsins.

Í 13 af 35 fréttatímum Stöðvar 2 var engin erlend frétt, einu sinni voru þær þrjár, en annars ein eða tvær. Erlend frétt á Stöð 2 var aldrei nógu merkileg til að vera fyrsta frétt kvöldfréttatímans en erlend umfjöllun var fyrsta frétt í átta fréttatímum af 35 í Sjónvarpinu. Algengast var að erlendum fréttum væri raðað um miðbik frétta tímans.

Brotakennd heimsmynd

Ekki er nóg með að erlendu fréttirnar voru mun færri í fréttatímunum heldur voru þær einnig talsvert styttri en þær innlendu, eða 1 mínúta og 16 sekúndur, en innlendu fréttirnar voru að jafnaði rúm ein og hálf mínúta að lengd. Erlendar fréttir voru nokkru styttri á Stöð 2 en í Sjónvarpinu, eða að jafnaði 1 mínúta og 11 sekúndur á móti einni mínútu og 17 sekúndum.

Þremenningarnir benda á að samanborðið við hlutfall erlendra frétta í sjónvarpi víða annars staðar virðist ljóst að íslensku stöðvarnar séu eftirbátur sjónvarpsstöðva í nágrannalöndunum. Í erlendri rannsókn á erlendum fréttum 17 sjónvarpsstöðva í fimm heimsálfum reyndist hlutfall erlendra frétta að jafnaði 33 af hundraði eða um 5% hærra en hlutfallið hjá Sjónvarpinu og 22% hærra en hjá Stöð 2. Nokkur slagsíða er á uppruna erlendra frétta íslensku miðlanna samkvæmt rannsókninni því nærri helmingur allra fréttanna á uppruna sinn í Vestur Evrópu.

Íslenskir fjölmiðlar virðist almennt nokkuð drjúgir við að taka íslenskt sjónarhorn á erlendum fréttum. Ekki liggja fyrir rannsóknir um slíka nálgun en rannsóknarhöfundar benda á að  í mörgum rannsóknum hefur verið fjallað um „heimavæðingu“ erlendra frétta.

„Á sama tíma og fjölmiðlun hefur orðið fyrir margvíslegum áhrifum af aukinni hnattvæðingu og er í síauknum mæli alþjóðleg, gætir þessa fyrst og fremst í tæknilegri, og efnahagslegri umgjörð fjölmiðlunar og boð skipta, en ekki í efnisvali og umfjöllunarefni fjölmiðla. Í stað þess að fjölmiðlar endurspegli ólíka menningu og margbreytileika er efni og umfjöllun þeirra í síauknum mæli einhæfara og staðbundnara. Sú heimsmynd sem fjölmiðlar færa okkur er ærið brotakennd, ef ekki beinlínis broguð,“ segir í niðurlagi skýrslunnar.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir