Heimssagan í beinni

Mynd: visir.is

Beinar útsendingar frá hinum ýmsu viðburðum eru orðnar daglegt brauð í dag. Það er nokkurvegin sama hvar hlutirnir gerast, alltaf virðist vera hægt að nálgast myndir og fréttir af því sem gerist. Árásin á World Trade Center í New York er gott dæmi þar sem fólk gat í rauninni setið í sófanum heima hjá sér, með popp og kók, og horft á stríð í beinni útsendingu. Flestir muna vel eftir þessum stærsta atburði síðustu ára og muna e.t.v. hvar þeir voru eða hvað þeir voru að gera þegar þessi atburður átti sér stað. Það má kannski segja að þetta sé „morð Kennedys“ minnar kynslóðar. 

Ég var 14 ára og það var eitthvað bil á milli tíma í skólanum þannig að ég hafði farið heim. Það  fyrsta sem maður gerir auðvitað er að kveikja á sjónvarpinu og viti menn, það fyrsta sem ég sá var bygging, reykur og einhverjir menn að tala saman. Það leið þó ekki á löngu þar til seinni flugvélin skall á byggingunni og allt varð vitlaust. Í fyrsta skipti heyrði maður nafnið Osama Bin Laden sem og um það að það væri til eitthvað sem héti hryðjuverk. Allt þetta og meira gerðist í þessari einu, beinu útsendingu en það sem mér finnst einkennilegast í þessu er að maður kippti sér ekkert upp við þetta. Ég slökkti á sjónvarpinu þegar ég þurfti að fara í skólann og labbaði af stað eins og ekkert hefði í skorist.

Ástæðan fyrir því að ég er að rifja þetta upp er sú að í síðustu viku var gerð tilraun til byltingar í Egyptalandi, sem enn stendur yfir, en sú bylting hefur einnig verið sýnd í beinni útsendingu á hinum ýmsu sjónvarpsstöðvum. Ég sat heima og horfði á þetta á Sky News en þar mátti sjá fólk kasta grjóti og molotov kokteilum, menn barða til óbóta af æstum múgi og annað í þeim dúr. Jafnvel menn á hestum og úlföldum gera riddaraliðs árás sem fór ekki betur en svo að margir þeirra voru dregnir af fararskjótum sínum og misþyrmt. Þetta var í gangi allan daginn og fram á kvöld og maður horfir á þetta yfir morgunmatnum, hádegismatnum, kaffinu og kvöldmatnum að ógleymdu öllu því narti sem viðgengst á milli mála. Það að horfa á stríð og byltingar í beinni útsendingu er orðinn svo sjálfsagður hlutur að maður hugsar varla um það. Í dag er bókstaflega hægt að horfa á heimssöguna verða til, live frá Kaíró.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir