Hélt að þetta væri ekki hægt

Ljótu hálfvitarnir spila á Græna hattinum um helgina

Græni Hatturinn er tónleikastaður í miðbæ Akureyrar sem síðustu árin hefur stimplað sig inn sem einn af burðarstólpum menningarlífs bæjarins. Hann hefur þó ekki alltaf notið jafn mikillar velgengni. Landpósturinn fór og ræddi við Hauk Tryggvason, rekstaraðila staðarins.

Sigmundur Einarsson, eigandi húsnæðisins, stofnaði Græna Hattinn árið 1999 og rak til að byrja með. Fjórum árum seinna tók Haukur svo við starfseminni. Til að byrja með voru dansleikir á staðnum um helgar en tónleikahaldið byrjaði árið 2004. Það fór að sögn Hauks mjög rólega af stað og tók ekki almennilega við sér fyrr en fyrir tveimur til þremur árum.

“Það er búið að taka svolítinn tíma að ala fólk upp og fá það til að mæta klukkan átta eða níu á kvöldin. Ég hélt að þetta væri ekki hægt enda venjan hjá Akureyringum að fara ekkert út fyrr en eftir miðnætti. Þetta hefur þó tekist ágætlega.”  

Til að byrja með voru tónleikar á Græna Hattinum aðallega á fimmtudagskvöldum. Sá fyrsti sem spilaði á laugardagskvöldi var Pétur Ben. Haukur segist hafa varað hann við, að líklega myndi enginn mæta. Síðan þá hefur ýmislegt breyst og nú er staðurinn (sem tekur 170 manns í sæti) iðulega fullsetinn um helgar og góð aðsókn er einnig á tónleika á fimmtudögum. Þó hefur ekki gengið sérstaklega vel að halda tónleika á miðvikudögum, a.m.k. ekki á vetrarmánuðunum. Á sumrin gengur betur að hafa tónleika í miðri viku og hafa tónleikar þá einnig verið á þriðjudags- og miðvikudagskvöldum.

Þegar talið berst að markaðnum fyrir starfsemi Græna Hattsins segir Haukur: “Ég held að ég hafi í rauninni bara búið markaðinn til, hann var ekki fyrir hendi. Ég var búinn að vera í þessu í 4 ár þegar þetta fór að bera einhvern árangur. Maður var oft kominn að því að hætta en áhugi á tónlistinni og þrjóska varð til þess að ég hélt áfram. Ég get ekki hugsað mér skemmtilegri vinnu.”
Þrjóskan virðist aldeilis hafa borgað sig, á síðasta ári voru 130 tónleikar haldnir á Græna Hattinum, ásamt hagyrðingakvöldi, uppistandi og leiksýningum.

Aðspurður segirst Haukur ekki lengur þurfa að hringja í hljómsveitirnar, þær hringja og vilja koma að spila. Menn láta vel af því að spila á Græna Hattinum, tala um að gott sé að spila þar og nálægðin við gestina sé mikil. Þá hafa tónlistarmenn sem yfirleitt ekki fara á svið, spilað á staðnum og líkað vel.

Yfirleitt koma á Græna Hattinn hljómsveitir og sýningar sem hafa verið í gangi og spilað annarsstaðar. Þó hafa sumar sýningar, eins og t.d. Killer Queen, verið settar upp sérstaklega fyrir Græna Hattinn. Einnig má nefna að Bravóbítlarnir komu aftur saman eingöngu til að spila á Hattinum. Þeir voru starfandi kringum 1965 og höfðu ekki komið saman í tæp 40 ár. Þeir urðu helst frægir fyrir að hita upp fyrir Kinks í Austurbæjarbíói, þá 12 og 13 ára gamlir.

Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á tónleikaskipulag næstu mánaða og staðurinn er nánast fullbókaður fram að páskum. Sem dæmi má nefna að Ljótu Hálfvitarnir spila um næstu helgi. Forsalan hefur farið vel af stað, eins og við má búast þegar Hálfvitarnir eiga í hlut. Á næstu mánuðum munu svo m.a. Hjaltalín, Árstíðir og Hjálmar koma fram, svo það verður nóg að gera á Græna Hattinum.

Landpósturinn þakkar Hauki fyrir spjallið og bendir áhugsömum á hóp Græna Hattsins á facebook. Þar koma inn tilkynningar um viðburði sem framundan eru.


- HH


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir