Hið árlega drama er hafið

Einhver vinnur, einhver tapar

Nú er um fátt meira talað en eurovision keppni síðastliðinnar helgar, en þá var framlag okkar valið til keppninnar í Bakú í Aserbaídsjan í maí. Neikvæðar raddir eru háværar eftir úrslitin. Þeim finnst rangt lag hafa unnið, þeim finnast úrslitin ósanngjörn og þær krefjast nýrra kosninga. 

Persónulega finnst mér besta lagið hafa unnið, en mín skoðun skiptir að sjálfsögðu litlu máli.

Staðreyndin er samt sú, að atkvæði úr símakosningu vógu 50% á móti 50% vægi dómnefndar. Það var vitað frá byrjun. Fólk ákvað sjálft að taka upp símann og eyða 119 krónum (ekki slæmt fyrir símafyrirtækin) í að gefa sitt atkvæði, því er við engan að sakast nema það sjálft, sjái það eftir þeim peningum.

Munið þið hvernig eurovision var fyrir nokkrum árum? Þegar engin þjóð komst áfram í úrslit nema austantjaldsþjóð, en þær studdu hver aðra. Það var þegar símakosning gilti 100%. Þá vorum við, Íslendingarnir nú ekki sáttir. Þá var tekin upp sú stefna að hafa jafnt vægi símakosningar og dómnefndar. Þá loksins virtist sem lög kæmust jafnvel áfram á eigin verðleikum. Síðan þá hefur verið meiri fjölbreytni í sigurlögum.

Munið þið líka eftir því þegar Silvía Nótt fór í eurovision? Það var þegar símakosning gilti 100%. Hún vann vegna þess að hún var ótrúlega vinsæl á Íslandi á þessum tíma, sérstaklega meðal unglinga, en þeir eru taldir fjölmennasti hópur þeirra sem hringja inn atkvæði sín. Evrópa var ekkert yfir sig hrifin af þessum karakter og margir náðu ekki gríninu, skiljanlega. Aftur get ég komið með mína persónulegu skoðun, en það ár voru nokkur frábær lög í kepnninni sem lutu í lægra haldi fyrir Silvíu og þykir mér það mikil synd. Þér við hlið með Regínu Ósk og Andvaka með Guðrúnu Árnýju eru tvö lög sem eru mér jafn fersk í minni enn þann dag í dag, en svona er þetta bara, hvort sem það er símakosning eða ekki, þá eru einhverjir sem enda fúlir – þetta ár var ég meðal þeirra.

En það verður bara að segjast eins og er; dómnefndin er skipuð fagmönnum sem vita hvað þeir eru að gera (við hljótum að reikna með því). Í keppnislandinu situr einnig dómnefnd sem treyst er til þess að dæma á móti símaatkvæðagreiðslu.

Einnig má benda á, að á milli sigurlagsins í ár og þess sem varð í öðru sæti í símaatkvæðagreiðslunni, munaði ekki nema u.þ.b. 700 atkvæðum. Það er ekki mikið, sérstaklega þegar litið er til þess að hver og einn má senda atkvæði eins oft og hann vill.

Dómnefnd kýs það lag sem hún heldur að fari best í stóru keppninni og þar er ekki nein klíka sem ræður. Einstaklingar kjósa pottþétt oftast lög sem þeim finnast flottust, en oft vegna þess að frændi, vinur, uppáhalds söngvari eða álíka, eru partur af atriðinu og því kannski ekki alveg hlutlaus ákvörðun.

Það gerist á hverju ári, að einhverjir eru ósáttir við úrslitin – enda ekki annað hægt. Það má heita útilokað að heil þjóð sameinist um eina niðurstöðu og sé fullkomlega sammála og því munu  umræður sem þessar alltaf spinnast í kringum eruovision söngvakeppnina í því formi sem hún er – og reyndar hvaða formi sem er, ef því er að skipta.

En nú hef ég komið minni skoðun á framfæri og aðeins fjalla um þetta, en eitt er víst og það er að ég mun vera stoltur Íslendingur þegar ég horfi á Jónsa og Gretu Salóme flytja frábært lag í Bakú, þann 22. maí.Katrín Eiríksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir