Hjálp, ég er svo veik

Nei, nú hætti ég þessari vitleysu

Ég er illa haldin. Ég er mjög veik. Vandamálið mitt er slæmt tilfelli af frestunaráráttu.

Ég fresta öllu – og þá meina ég öllu! Sérstaklega auðveldum hlutum sem ég gæti klárað frá á sekúndubroti. Ég fresta þeim eins lengi og hægt er, svo lengi að þeir eru orðnir stórmál þegar ég loksins kem mér í að klára þá frá.

Ég ætla að taka dæmi, eiginlega skammarlegt dæmi sem ég er hreint ekkert stolt af.

Ég fæ pilluna á raðseðla í apóteki. Ég er búin með pilluspjöldin mín og fer í apótekið til þess að kaupa ný. Taka skal fram að ég fer daginn sem ég á að byrja á nýrri pillu. Ég mæti þarna í apótekið og segi kennitöluna mína. „Þú átt ekki seðil eftir. Þú þarft að heyra í heimilislækninum þínum og fá hann til þess að endurnýja lyfseðilinn“ er mér sagt. Ég stend þarna eins og auli í hálfgerðu sjokki. „En ég hélt að ég ætti allavega eina afgreiðslu eftir! Ég á að byrja í dag!“. Starfsfólkið vorkennir þessari aumingjalegu stúlku og hugsar væntanlega að hún eigi ekkert að fara að eignast barn núna, svona óskipulögð og umkomulaus og selur mér því pilluspjald með því skilyrði að ég heyri í lækni strax í fyrramálið og fái nýjan seðil. Auðvitað ætla ég að gera það! Ég er svo ánægð að fólkið hafi reddað mér! Vandamáli er stýrt frá! Morguninn líður. Ég geri ekkert í málunum. Ég held að ég gleymi því, en hugsanlega ætla ég að gera það bara seinna í dag. Vikan líður. Ég hef ekki heyrt neitt í lækninum. Á endanum átta ég mig á því ég að ég þarf að fá nýtt spjald... á morgun! Þá loksins dr****** ég til þess að kveikja á tölvunni. Ég finn póstfangið hjá Kristni, heimilislækninum mínum og  ég sendi honum tölvupóst þess efnis að ég þurfi nýjan lyfseðil fyrir pilluna. Ég fæ svar tíu mínútum seinna: „Ekkert mál, búinn að senda í apótekið“ og málið er búið. Af hverju í ósköpunum sendi ég ekki þennan litla, ómerkilega póst fyrir tveimur vikum???

Af hverju geri ég þetta? Ég get ekki ímyndað mér svarið, en ég veit þó að ég er ekki ein. Eins undarlegt og það er, þá er það nokkur huggun. Ég er ekki sú eina sem er illa haldin af veikindum frestunarinnar.  

Kannski ætti ég ekki að birta þennan pistil. Þetta er ekki eitthvað sem ég er stolt af – en ætli ég verði nú samt ekki að fara að leita mér lækninga og er ekki partur af hverju bataferli viðurkenning á vandamáli? Jú, ég held að ég hafi einhvern tíma heyrt það og sendi ég því þennan pistil hér með inn... ég er hvort eð er búin að fresta því að senda inn grein á landpóstinn alla þessa vikuna.

- Katrín EiríksdóttirAthugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir