Hljóðbækur og heimilisverk -

Ég er með netta áráttu fyrir bókum, og safna þeim grimmt. Það er sjaldan nóg fyrir mig að lesa bara bækur – ég verð að eiga þær. Ég á orðið dágott safn af misgóðum bókum, sumar eru svo arfaslakar að ég hef enn ekki klárað þær, þrátt fyrir mögulega margar tilraunir – en aðrar eiga sér nánast fastan sess á náttborðinu hjá mér, og ég get lesið þær aftur og aftur. 

Gefið, eftir að ég hóf nám í Háskólanum – þá breyttust lestrarvenjur mínar „örlítið“, þar sem sólarhringurinn varð skyndilega nokkrum tímum styttri, og ég virðist aldrei ná að klára allt sem þarf að klára. Hvað þá að ég búi yfir þeim lúxus að geta legið upp í sófa og lesið frjálslestrarbækur. Seisei nei.

Fyrir nokkrum vikum rakst ég á stiklu úr kvikmynd sem verið var að frumsýna núna um helgina – og þar sem ég hef áhuga á hverskyns ævintýrum þá heillaðist ég strax og kynnti mér þetta betur. Ég komst að því að myndin „The hunger games“ er byggð á bókum eftir Suzanne Collins, og eru þær þrjár.

Með það sama varð ég mér úti um þríleikinn á hljóðbók! Ég ákvað að þó ég hefði engan tíma, eða eirð í mér til að setjast niður með bók, þá gæti ég hugsanlega komið inn nokkrum mínútum af hlustun, hér og þar – og viti menn, á aðeins örfáum dögum kláraði ég fyrstu bókina. Ég notaði hverja lausa stund til að hlusta og nýttust þar allar þær fjöööölmörgu stundir sem ég eyði í heimilisstörf vel. Þær voru reyndar ekkert rosalega margar, en fjölgaði þó töluvert þegar ég sá það að ég gæti vel samnýtt þetta tvennt.

Núna er ég hálfnuð í hlustun með bók númer 2 – og ég get ekki beðið eftir næsta þvottafargi sem þarf að brjóta saman, svo ég fái tækifæri til að hlusta. Fyrir þá sem eru hrifnir af ævintýrum og svolítið svona, öðruvísi, bókum – þá mæli ég með þessum.

Ég ákvað svo að taka þátt í bíóleik Borgarbíós, og freista gæfunnar og vinna mögulega miða á myndina. Ég skráði hvort tveggja mig og systur mína í pottinn, svona – ef hún skyldi vinna, þá myndi hún auðvitað bjóða mér með. Hún vann svo auðvitað miða, stelpan – en bara einn! Asnalegi leikur. 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir