Höfuðborgarstefnan er að líða undir lok

Dr. Þóroddur Bjarnason
Á Íslandi hefur ríkt höfuðborgarstefna undanfarin 200 ár að mati dr. Þórodds Bjarnasonar, stjórnarformanns Byggðastofnunar. Stefnan er hinsvegar að líða undir lok og stefnir allt í að byggðir landsins geti staðið á sjálfstæðari og stöðugri fótum, með minnkandi samskiptum við Reykjavík.  8% þjóðarinnar búa hinsvegar á svokölluðum varnarsvæðum og eru þau mjög háð höfuðborginni, en íbúar á Vestfjörðum eru á varnarsvæði. Að sögn Þórodds er það hlutverk allra vaxtarbyggða á landinu að hlúa að varnarsvæðunum svo þau þurfi ekki að vera háð höfuðborginni. Þetta kemur fram í erindi Þórodds á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í síðustu viku. 

Þóroddur tók fram í erindi sínu að því væri stundum haldið fram að engin byggðastefna væri á Íslandi, en því væri öðru nær. Hún hafi verið í formi höfuðborgarstefnunnar síðastliðin 200 ár. „Höfuðborgarstefnan var mótuð meðal íslenskra sjálfstæðissina í Kaupmannahöfn og miðaði að því að byggja upp þorpið Reykjavík og gera það að bæ sem gæti byggt um nútímasamfélag á Íslandi,“ sagði Þóroddur, en árið 1801 bjuggu 307 íbúar í Reykjavík. Höfuðborgarstefnan miðaði að því að flytja allar stofnanir þjóðarinnar jafnt og þétt til Reykjavíkur. 

„En er þá rétt að ræða um borgríki í þessu samhengi,“ spyr Þóroddur og tekur fram að árið 1911 hafi 18 prósent þjóðarinnar búið á höfuðborgarsvæðinu og 82 prósent utan þess, en árið 2010 hafi 64 prósent þjóðarinnar búið á höfuðborgarsvæðinu og 36 prósent utan þess. Staðreyndin sé hinsvegar sú að á felstum svæðum á landinu hefur mannfjöldinn tvöfaldast, þrefaldast eða ferfaldast. „Einu svæðin á landinu þar sem fólki hefur fækkað umtalsvert eru Vestfirðir, en þar hefur fólki fækkað um nær helming á 100 árum. Annars staðar hefur fjölgað,“ segir Þóroddur. 

Þóroddur telur að landsbyggðirnar standi í heild sinni frekar vel. Þrjú vaxtarsvæði séu á landinu. Á suðversturhorninu er 200 fkm svæði þar sem 253 þúsund íbúar búa. Þar hefur orðið 17 prósent fjölgun á íbúum síðustu 10 ár. Á miðju Norðurlandi búa 31 þúsund íbúar á 210 fkm svæði, en 4 prósent fjölgun hefur átt sér stað þar síðastliðin 10 ár. Á Austurlandi hefur íbúum fjölgað um 8 prósent síðustu tíu ár, en þar búa nú 10 þúsund íbúar á um 180 fkm svæði. Samalagt gerir þetta um 92 prósent þjóðarinnar. 

„Það sem eftir er, eru hin raunverulegu varnarsvæði landsins, þau svæði sem fara verst út úr því þegar talað er um landsbyggðina í eintölu og þurfa á mestum stuðningi okkar allra að halda,“ segir Þóroddur, en á Norðvesturhluta landsins búa 15.000 manns, þar sem fólki hefur fækkað um 10% síðastliðin 10 ár. Á Suðurlandi er 7000 manna svæði (aðallega Höfn og Vestmannaeyjar) þar sem fækkað hefur um 10% á síðustu tíu árum. „Landsbyggðir eru misjafnar, en þegar við hörfum á þetta í heild þá sjáum við að höfuðborgarsvæðið er fjórfalt stærra. Landsbyggðirnar eru í dag hinsvegar stærri en allt Ísland var árið 1801 og 1901 og stærri en Grænland og Færeyjar samalagt.“ 

Þóroddur telur að á síðustu áratugum hafa orðið gríðarlegar breytingar á menntun þjóðarinnar sem og framförum innan tækni og vísinda. Hann telur rangt að stilla landsbyggðinni upp gegn höfuðborgarsvæðinu. „Við getum bæði byggt um hátæknisjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu og haldið uppi góðri þjónustu á landsbyggðinni. Þessi annaðhvort/eða deila á rætur sínar að rekja til höfuðborgarstefnunnar. Það er eins og við fáum samviskubit yfir því byggðar séu háskólastofnanir út um allt land, eins og við séum að svíkja höfuðborgarstefnuna,“ segir Þóroddur og bendir á að menningarlíf Reykjavíkur þurfi ekki á landsbyggðinni að halda. „Sú frambærilega menningarstarfsemi sem þrífst á höfuðborgarsvæðinu þarf ekki á því að halda að Vestfirðingar eða Austfirðingar styðji það.“ 

Á dögunum birti KPMG skýrslu um að allt innanlandsflug á Íslandi myndi leggjast af ef það flyttist frá Reykjavík til Keflavíkur. Þóroddur telur þá stefnu sem innanlandsflugið á Íslandi hefur fylgt úrelta. „Innanlandsflugið er að vissu leyti afskaplega falleg táknmynd höfuðborgarstefnunnar, þ.e. að allir landsmenn geti komist á Austurvöll á innan við tveimur tímum,“ segir hann, en bendir á að í nýrri samgönguáætlun megi sjá þess merki um að þetta sé að breytast. „Þar er gert ráð fyrir því að mikilvægara sé að þjónustukjarnar séu aldrei í meira en klukkustunda fjarlægð. Þar er gert ráð fyrir því að það taki allt að fjóra tíma að fara til Reykjavíkur. Ef við kíkjum aðeins upp úr skotgröfunum sjáum við að þetta er afskaplega merkilegur vitnisburður um endalok höfuðborgarstefnunnar. Við erum búin að átta okkur á því að við getum byggt upp samfélag um allt land,“ segir Þóroddur, sem segir það engu máli skipta nema fyrir varnarsvæði landsins ef innanlandsflug legðist af. 

„Ef að innanlandsflug myndi leggjast af gæti það mögulega verið það besta sem gæti gerst fyrir mið-Norðurland. Þeir þyrftu þá að taka að sér allar þjónustu. Það sama gildir um Austurland. Það er hinsvegar alveg ljóst að þau þau þrjú svæði sem þurfa á stuðningi höfuðborgarsvæðisins að halda munu lenda í mjög miklum erfiðleikum,“ segir Þóroddur, og vísar þar til Vestmannaeyja, Vestur-Barðastrandasýslu og Ísafjaðrarsýslu, sem hann kallar hinar þrjár byggðu eyjar á Íslandi. „Það er ljóst að ef við hverfum frá höfuðborgarstefnunni, sem hefur skilað miklum árangri, þurfum við að horfa miklu hvassar á þessi varnarsvæði og spyrja hvað við getum gert fyrir þau,“ segir Þóroddur og segir það hlutverk allra svæða á landinu. „Vaxtarsvæðin þurfa einnig að horfa til þessa. 

„Eitt sem hefur gleymst í þessu öllu saman er að þegar við fórum af stað með höfuðborgarstefnuna tók það rúma viku að komast til útlanda. Þegar og ef innanlandsflug leggst af verða Akureyringar fljótari til Kaupmannahafnar en íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Með hækkandi menntunarstigi og aukinni tækni er ljóst að samskipti við útlönd eru ekki bundin við Reykjavík.“ Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir