Hraðréttur námsmannsins

Hraðrétturinn. Mynd/Úr einkasafni

Þegar nemandi missir tökin á skipulagi sínu, eða hefur alveg ótrúlega mikið af verkefnum sem komu óvænt á hann eins og ég kýs að líta á það, þá fer oft minni tími í að hugleiða hvað skuli matreiða ofan í sig. 

Ég bý svo vel að hugsa einungis um sjálfan mig og í offorsinu öllu gleymi ég stundum að líkami minn krefst næringar, hann gangi ekki bara á eplasvala og bjór eftir því hvaða dagur vikunnar er. Þegar maginn á mér gaf frá sér hljóð eitt kvöldið í vikunni sem líktist einna helst fíl á mökunartíma mundi ég eftir því að ég hafði verulega lítið borðað þann daginn. Ekki hafði ég heldur munað eftir því að fara í Bónus neitt nýlega og því voru góð ráð dýr.

Ég opnaði alla skápa og sá að ég á ansi myndarlegan og magnmikinn kryddskáp en versla ekki endilega alltaf eitthvað til þess að nota við. Ég fann einn núðlupakka innst í síðasta skápnum og pylsupakka í ísskápnum. Með öllu mínu eldhúshugmyndaflugi sá ég mér leik á borði um að hrista fram veislu við fáránlega lítinn tilkostnað. Ég fíraði pönnuna í hæsta styrk og skvetti olíu á þar til snarkaði í. Pylsurnar skar ég í bita og henti út á pönnuna með örlítilli tómatsósuskvettu, svona upp á bragðið. Núðlurnar sauð ég upp úr sojasósuvatnsblöndu og karríkryddi ásamt verulegu magni af chillikryddi. Ég hef fáar aðrar afsakanir fyrir kryddhneigðinni en þá að mér líkar vel kryddaður matur.

Þegar núðlusuðan kom upp og pylsurnar höfðu fengið að malla í nokkrar mínútur sáu kokkaaugun að allt væri að verða klárt. Ég passaði að sigta núðlurnar og hrúga svo öllu heila klabbinu saman í skál. Því næst bar ég á borð og skálaði við sjálfan mig í ísköldu kalkfreyðandi akureyrísku vatni. Saddur og sællegur kláraði ég svo skilaverkefni kvöldsins og hreinlega varð að deila uppskriftinni með öðrum.

Ingvar Björn Guðlaugsson


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir