Hrefna Sætran og Axel Björn voru á Strikinu um helgina

Tveir af færustu kokkum landsins voru gestakokkar á veitingahúsinu Strikinu á Akureyri um helgina. Það eru þau Hrefna Sætran og Axel Björn. Þau settu sérstaklega saman þriggja rétta matseðil þar sem þú gast valið þína leið. Um helgina 25. og 26. Október voru þau Axel Björn Clausen(25 ára) og Hrefna Rósa Jóhannsdóttir Sætran(33 ára) gestakokkar á Strikinu. Hrefna Sætran er einn af fremstu matreiðslumönnum landsins. Hún á og rekur tvö af vinsælustu veitingahúsum Reykjavíkur, Fiskimarkaðinn og Grillmarkaðinn. Axel Björn er yfirkokkur á Fiskimarkaðinum. Hann útskrifaðist af Grand hótel og þaðan lá leið hans til Hrefnu á Fiskimarkaðinn. Axel er á sínu fyrsta ári í Kokkalandsliðiðnu.

Ég hitti Hrefnu og Axel á Strikinu á sunnudagsmorgni. Hrefna kom fyrst því Axel var að taka bensín fyrir heimferðina. Það kom lítill drengur trítlandi inn með Hrefnu, það er eldri sonur hennar sem heitir Bertram Skuggi og er tveggja ára. En Hrefna og unnusti hennar, Björn Árnason, eiga einnig dóttir sem fæddist í apríl á þessu ári og heitir Hrafnhildur Skugga. Hrefna er búin að vera ferðast mikið undanfarið svo hún sagðist ekki hafa getað hugsað sér annað en að taka fjölskylduna með til Akureyrar þessa helgina. Axel Björn kom svo og slóst í hópinn með okkur. Kærasta hans kom einnig með norður, en þau eiga von á sínu fyrsta barni saman.

Axel byrjaði á Fiskimarkaðnum í apríl 2010. Hann er nú yfirkokkur þar og hefur mótað stefnu staðarins síðustu tvö ár. Hann er fæddur og uppalinn á Akureyri og á fjölskyldu hér svo honum fannst mjög gott að koma um helgina. Hann bjó á Akureyri í 17 ár áður en hann flutti suður. Hann var á almennri braut í Verkmenntaskólanum á Akureyri og datt svo inn í grunnám matvælagreina. Þá var ekki aftur snúið. Hann stefnir á að taka matreiðslumeistarann næsta haust. Hrefna kláraði það nám einmitt í maí á þessu ári. Matreiðslunám er eins árs nám í bóklegum fögum, þú þarft að taka það til þess að geta verið með nema á veitingastað. 

Langt síðan hugmyndin kom upp

Það er langt síðan að Axel og Hrefna voru beðin um að koma á Strikið. Kristján sem er vaktstjóri á Strikinu er æskuvinur Axels og þess vegna myndaðist tengingin. Hann hringdi fyrir um hálfu ári síðan og nú varð þetta loksins að veruleika. Bæði Kristján og Steinunn Heba, framkvæmdastjóri og einn af eigendum Striksins, komu þessari hugmynd í kring. Axel Björn sagðist vonast eftir því að þau gerðu þetta aftur því honum finnst gaman að koma á heimaslóðir. Þau komu hingað á fimmtudagskvöld og voru svo að matreiða á Strikinu föstudag og laugardag. Þau settu saman þriggja rétta matseðil af réttum sem þau héldu að Akureyringum þætti gaman að smakka. Langflestir pöntuðu af matseðli Axels og Hrefnu þrátt fyrir að annar matseðill hafi verið í boði. Kristján, vaktastjóri á Strikinu, sagði helgina hafa gengið vonum framar jafnvel þótt færri væru í bænum en vanalega. 

Erfiðar vinnuferðir til London og Abu Dhabi 

Hrefna reynir að fara sem oftast í vinnuferðir erlendis með yfirmönnum og vaktstjórum Fiskimarkaðsins og Grillmarkaðsins. Þau eru til dæmis búin að fara til Abu Dhabi, London og Parísar. Í þessum ferðum er farið oft út að borða og margir réttir pantaðir. Hrefna talar um að þetta sé einskonar endurmenntun fyrir matreiðslufólkið. Hún segir þetta vera mjög erfitt því það er ekkert grín að borða endalausa rétti, stundum er hún svo södd að hún getur varla ímyndað sér að borða meira. Núna í október fóru þau til London, þar var farið á svokallað „Restaurant show“. Í sömu ferð datt Hrefnu það snjallræði í hug að fara á safabar. Þar voru pantaðir safar sem hreinsa, það virkaði mjög vel og gátu þau haldið áfram að prufa fleiri rétti á fleiri veitingastöðum. 

Kokkalandsliðið

Axel Björn er á sínu fyrsta ári í Kokkalandsliðinu. Það eru strangar æfingar framundan því liðið er að fara taka þátt í Heimsmeistarakeppni í nóvember á næsta ári. Hrefna var í Kokkalandsliðinu í 10 ár en hætti þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn. Hún sagði að hún hefði ekki lengur haft tíma því það er mikil vinna í kringum þetta. Ásamt því að reka veitingahúsin tvö þá hefur Hrefna verið að gefa út matreiðslubækur, gert þætti, gefið út matvörulínu, framleitt börn, menntað sig og margt fleira. 

Er hægt að sinna fjölskyldu og vinum þegar maður er svona góður matreiðslumaður?

Þar sem að Axel og Hrefna eru með gífurlega margt á könnunni þá er maður dulítið forvitin hvernig það gengur að sinna fjölskyldu og félagslífi. Axel sagði það ganga vel, að það væri aldrei of mikið að gera. En hann á einn fjögra ára strák í Þýskalandi og svo er annað barn á leiðinni eins og áður kom fram. Hrefnu finnst gaman að hafa svona mikið að gera og ef hún sér fram á „dautt tímabil“ þá reynir hún að hugsa eitthvað sniðugt til þess að gera. Það gengur vel að sinna fjölskyldunni en vinir og félagslíf hafa setið svolítið á hakanum segir hún.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir