Hugleiðingar um hlutleysi

Hlutleysi er í fréttaflutningi hugtak sem auðveldara er að setja fram en endilega að vinna eftir. 
Íslenskir blaðamenn hafa sjálfir sett sér siðareglur þar sem meðal annars er tiltekið að blaðamenn skuli hafa eigin virðingu sem og stéttarinnar allrar að leiðarljósi við vinnslu og framsetningu frétta. Einnig er lögð áhersla á að blaðamenn leitist alltaf við að segja frá þeim hlutum sem varða almenning en fjalli ekki um einkahagsmuni eða álitamál þeirra sjálfra.


Það eru þó nokkrar staðreyndir sem geta truflað fréttamanninn, hversu einlægur sem ásetningur hans annars kann að vera. Þannig eru þeir allir einstaklingar - með eigin skoðanir og lífssýn en einnig  þátttakendur í samfélaginu og verða þar eins og aðrir fyrir áhrifum sem eru nánast dæmd til að endurspeglast í fréttamati, upplýsingaöflun og framsetningu frétta þeirra.

Annað er að þeir eru flestir starfsmenn á ákveðnum miðlum og hafa yfirmenn sem eru þá ritstjórnendur og fréttastjórar sem hafa eitthvað að segja um það hvaða efni fjölmiðillinn birtir. Eins getur verið ákveðnar reglur í gildi á miðlinum sem ólíklegt er að fréttamaðurinn komist algjörlega undan, hvort sem það er leynt eða ljóst.

Engu að síður reyna langflestir fréttamenn að vinna út frá þeirri meginreglu að miðla fréttum af ábyrgð og nota má ýmis orð til viðmiðunar um það, svo sem  hlutleysi, hlutlægni, sannleik, nákvæmni og alhliða umfjöllun.


Hitt er svo annað mál, að það á við um hlutleysi eins og annað að það getur verið erfitt að hitta á hinn gullna meðalveg. 
Fyrr í haust birti fréttaskýringaþátturinn Silfur Egils, viðtal við Bandaríkjamanninn Noam Chomsky. Hann var þar kynntur sem einn „áhrifamesti þjóðfélagsrýnir samtímans“.

Í viðtalinu segir Chomtsky eitt helsta vandamál upplýsingarinnar vera að fréttamenn séu nánast heilaþvegnir til að fjalla ævinlega og alltaf um að tvær hliðar séu á öllum málum.

Hann tók dæmi af fréttaumfjöllun um hlýnun jarðar. Hann segir 98% vísindamanna líta svo á hlýnun jarðar sé staðreynd og að löngu tímabært sé að bregðast við vandanum. Ráðamenn í Bandaríkjunum vilji hins vegar ekki kannast við vandann, afneiti honum sjálfir og „leiti uppi“ þessi 2% vísindamanna sem alltaf séu tilbúnir til að ganga gegn ríkjandi skoðunum.

Í eilífri baráttu fréttamannsins fyrir sanngirni í skoðunum og hlutleysi í umfjöllunum birti þeir sjónarmið beggja aðila til jafns. Þar með missi almenningur af tækifæri til að fá réttar upplýsingar og sitji oft eftir enn ringlaðri en þegar umfjöllunin hófst. 

Þetta er vissulega sjónarmið sem vert er að velta fyrir sér og sýnir í það minnsta að val á fréttaefnum og framsetningu þeirra er ekki endilega einhver ein augljós staðreynd.

Þórný Barðadóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir