Hugleiðingar um náðhús

Ég lenti í bæði skemmtilegu og áhugaverðu spjalli um daginn meðan ég stóð í biðröð að salerni HA. Eins og er á flestra vitorði milli veggja skólans eru samhliða þrjú salerni á nokkrum stöðum háskólans. Eitt merkt karlmanni, annað kvenmanni og það þriðja fyrir fatlaða. Ég var næst og röðin byrjuð að lengjast

fyrir aftan mig þegar tvær dömur taka eftir að salernið sem er í forgangi fyrir fatlaða var laust. Kurteisar spurðu þær hvort ég ætlaði þangað en ég svaraði sannleikanum samkvæmt að það væri prinsipp hjá mér að nota það ekki og bíða frekar eftir að röðin komi að mér á kvennaklóið. Það spunnust upp vangaveltur og einni fannst fatlaðir alveg geta beðið eins og aðrir og hin hafði bara ekkert séð neinn í hjólastól á göngum skólans. Mér leið eins og siðapostula þegar ég rökstuddi mitt svokallaða prinsipp hvað varðar sérmerkt náðhús. Það eru nefnilega ekki allir fatlaðir bundnir í hjólastól eða hafa líkamlega getu til að standa í löngum biðröðum. Umferð af fólki í gegnum Háskólann á Akureyri er ekki aðeins bundin nemum hans og kennurum, heldur líka ráðstefnugestum og gestum allsstaðar að. Ekki langar mig að lenda í þeirri aðstöðu samvisku minnar vegna að dunda mér inni á sérmerktu salerni fyrir fatlaða og á leiðinni út aftur að horfast kannski í augu við heila biðröð af fötluðum einstaklingum sem þurfa að ganga (eða hjóla) örna sínar. Frekar myndi ég nota karlaklóið og koma þaðan knarreist út. Já, það er alltaf gaman að velta sér upp úr ofur hversdagslegum hlutum og taka út smá vangaveltur um þarfaþing, bráðnauðsynleg málefni, ónauðsynleg og illnauðsynleg.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir