Hugsjónavoði Vinstri grænna

Steingrímur J. Sigfússon: Vandi á höndum.

Ég er hugsi yfir ríkisstjórninni okkar. Hugsi yfir hinni sömu ríkisstjórn og ég studdi og fagnaði eftir fall ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, hrunstjórnarinnar svonefndu. 

Það er mikil einföldun sem haldið hefur verið fram að vinstri grænir hafi átt stærstan þátt í falli hrunstjórnarinnar með því að ryðjast út með potta og pönnur og gera allt vitlaust. Ég var ekki vinstri grænn þegar fæturnir báru mig eins og ósjálfrátt út á göturnar til þátttöku í áköfum mótmælum. Emil Durkheim þjóðfélagsfræðingur hefði sagt að ég, þú og allir hinir sem mótmæltu hefðu einfaldlega verið partur af óhjákvæmilegum þjóðfélagsstraumi, straumi sem var þyngri en vilji okkar sem einstaklinga eftir efnahagslegt alhrun þjóðarinnar og allsherjar siðspillingu.

En nú er liðið ár frá byltingu og gleðin yfir því að sjá landið í nýjum og óspilltum höndum er löngu liðin. Satt best að segja hefur vinstri stjórn Samfylkingar og VG orðið lítið ágengt í erfiðum aðstæðum og dugar ekki lengur að kenna um veruleikafirrtri stjórnarandstöðu. Stjórnarandstaðan hefur að vísu  margt gott verkið tafið í einskisnýtri sjálfhverfu sinni en það er önnur saga. Tímabært er að viðurkenna að ein helsta ástæða þess hve ríkisstjórninni gengur illa að ná tökum á samfélaginu er hið blessaða lýðræði okkar, þetta óspjallaða lýðræði sem fólk sem er óvant stjórnartaumum virðist ekki kunna að höndla.

Drjúgur hluti Vinstri grænna heldur enn í þá barnalegu rómantík að sannfæring þingmanna hljóti  alltaf að sitja öllum öðrum hagsmunum ofar. Afleiðingin er sú að ekkert kemst í verk. Menn rífast um hvort setja eigi ost eða kæfu á brauðsneiðina. Tíminn fer í þras og aftur þras eins og hjá fjölskyldu sem  sest niður og ætlar að taka ákvörðun um hvert halda skuli í sumarfríinu. Eitt barnið fær sífellt nýjar og nýjar hugmyndir og samþykkir ekkert sem aðrir stinga uppá. Að lokum líður allt sumarið án þess að nokkur komist í fríið.

Ömurlegt var að fylgjast með ríkisstjórnum Sjálfstæðifslokks og Framsóknarflokks þegar sannfæring þingmanna skipti engu máli, þegar flokksræðið var fárveikt en vilji formannanna réð  einn ferðinni. Ömurlegt var að fylgjast með hvernig sá andlýðræðislegi stjórnunarstíll dró Ísland inn í áróðursstríð Bandaríkjamanna og fleiri niðurlægjandi dæmi mætti nefna. En það máttu Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson eiga að þeir komu hlutum í verk. Sum verk þeirra urðu reyndar upphafið að alhruni íslenska ríkisins en það máttu þeir eiga að hendur þeirra stóðu fram úr ermum. Flokksmenn gerðu þeim kleift að aðhafast þannig að landsmönnum leið eins og að ekki væru allir dagar eins. Ólíkt því sem nú er.

Nú rennur sandurinn í tímaglasi Íslendinga sem aldrei fyrr. Þjóðarlíkaminn liggur á skurðstofunni en það vantar læknana til að framkvæma aðgerðina. Ef bíða á lengur blasir voði við. Gera þarf að sárum þjóðarlíkamans og endurhæfa hann svo okkur takist að manna næstu orrustur. Í því stríði verður ekki spurt um sannfæringu hvers og eins. Því verður fólk að átta sig á. Ekki síðar en strax.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir