Hugtakasmíð og dráttarvélar

Kannski væri hægt að ná nokkrum viðbótar vinnustundum út úr þessari vél? Mynd: GÝS
Við Íslendingar höfum á allra síðustu árum eignast nýtt hugtak við erfiða fæðingu. Hugtakið er kennt við ártal, heiti þess er tvöþúsundogsjö og nær það á einu bretti yfir ýmsa þætti í tíðaranda s. s.  ofneyslu, flottræfilshátt og frjálslega skuldbindinu framfærslutekna heimila nokkra áratugi fram í tímann – tíðaranda sem við landsmenn tókum langflest þátt í á einn eða annan hátt, með tilheyrandi eftirsjá og andvörpum.
Birtingarmyndir tvöþúsundogsjö má finna víða en ein þeirra blasti við þegar undirrituð fletti Bændablaðinu  hér á dögunum og rakst á stutta grein um samdrátt á innflutningi dráttarvéla til landsins. Í greininni var birt tafla yfir innfluttar vélar s. l. áratug og þarna blasti þetta við – munurinn á tvöþúsundogsjö og eftirköstunum, því þennan áratug voru  að meðaltali  fluttar til landsins 227 dráttarvélar. Árið 2002 voru Íslendingar enn að hita sig upp fyrir hagsveifluna miklu og fluttu þá inn 90 vélar. Hvað svo gerðist er næsta fyrirsjáanlegt: Innflutningurinn jókst  hægt og bítandi, en það ár sem upp úr stóð og skekkti meðaltal innflutnings svo um munar var nefninlega títtnefnt  neysluár: 2007, þegar 389 vélar voru fluttar til landsins.

Blákaldur kreppuveruleikinn hefur svo blasað við bændum og verktökum landsins á síðasta ári, því þá þurftu vélaumboðin að láta sér nægja innflutning og sölu á litlum 17 dráttarvélum. Dráttarvélaeigendur landsins verða því líklega að gera eins og aðrir ofurneytendur næstu árin -  fara ákaflega vel og sparlega með það sem keypt var með tilfallandi fjármagni árið tvöþúsundogsjö og vona bara að það endist sem allra, allra lengst.

Þórný Barðadóttir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir