Hugtakið ónýtt er ekki til á þessu heimili

Myndlistarkonan Aðalheiður Eysteinsdóttir hefur komið sér vel fyrir í gamla félagsheimili Arnarneshrepps, þar sem hún hefur komið sér upp vinnustofu og heimili ásamt fjölskyldu sinni, þremur köttum og nokkrum landnámshænum.

Hún festi kaup á húsinu í júlí 2004 og var staðráðin í að veita húsinu líf aftur þrátt fyrir að húsnæðið væri í það slæmu ásigkomulagi, að búið var að dæma það ónýtt, enda vön því að endurnýta gamla hluti og skapa úr þeim listaverk. „Hugtakið ónýtt er ekki til á þessu heimili enda lifi ég af því að vinna með það sem aðrir hafa dæmt ónýtt‟ segir Aðalheiður hlæjandi.

Menningarsetur í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

Og hún virðist ekki hafa fengið nóg af endurbótum á gömlum húsum því nýverið festi hún kaup á gamla Alþýðuhúsinu á Siglufirði þar sem meiningin er að koma sér upp sér upp annarri vinnustofu og fjölnota menningarsetri og hlaut hún á dögunum styrk frá Menningarráði Eyþings til verkefnisins. „Ég keypti húsið á miklum vildarkjörum frá Sparisjóðnum sem átti það. Fjallabyggð kemur að þessu verkefni líka með því að aðstoða mig með öll opinber gjöld og framkvæmdir fyrir utan húsið. Ég hugsa þetta þannig að þetta verði til helminga vinnustofa fyrir fyrir mig og mína en hinn helmingurinn af húsinu er ætlaður til útláns öðrum listamönnum eða fræðifólki með því skilyrði að þeir leggji eitthvað af mörkum til bæjarfélagsins í staðinn. Það geta þeir gert með því að setja upp sýningu, halda fyrirlestur eða námskeið sem bæjarbúar hafa aðgang að og kæmi sér vel fyrir bæjarfélagið. Og síðan skipulegg ég sjálf menningarviðburði í húsinu og er meiningin að vera með menningarviðburð einu sinni í mánuði en ég er búin að skipuleggja viðburði frá júlí og fram í nóvember á þessu ári.‟


Menningin skilar arði í þjóðarkassann

Aðspurð hvort Héðinsfjarðargöngin hafi ekki breytt miklu þegar kemur að menningaruppbyggingu á Siglufirði bendir Aðalheiður á að hún hafi löngu verið komin af áður en göngin komu inn í myndina. „Örlygur Kristinsson og annað hugsjónafólk sem er menningarlega sinnað byrjaði á þessari uppbyggingu fyrir um það bil 25 árum þegar Síldarminjasafnið fór af stað. Og Örlygur hefur verið að berjast í alls konar málum fyrir bæinn eins og friðun gamalla húsa og standa vörð um gömlu bryggjurnar. Svo er annar þáttur í þessi og hann er sá að athafnamenn í landinu eru í raun og veru að átta sig á því að það er ekki lengur hægt að veðja á sjávarútveginn heldur eru þeir farnir að setja peningana sína inn í menninguna. Því menningin er það sem skilar inn í þjóðarkassann í dag. Þessi uppbygging er því ekki bara út af göngunum heldur myndi ég segja að hún er út af Síldarminjasafninu. Umheimurinn er hins vegar farinn að sjá hvað er að gerast á Siglufirði eftir að göngin komu.‟


Réttardagur - 50 sýninga röð

Aðalheiður fékk einnig styrk frá Menningarráði Eyþings til að setja upp fjórar sýningar úr sýningarröðinni Réttardagur – 50 sýningar í röð. „Það er verkefni sem ég er búin að vera með síðan 2008 og fjallar allt um sauðkindina og þá menningu sem skapast um og út frá sauðkindinni. Ég ákvað að setja upp 50 sýningar á milli afmælisdaganna minna frá því að ég var 45 ára og þangað til ég verð fimmtug. Þannig að á fimmtugsafmælisdaginn minn, þá mun ég setja upp mikla og risastóra yfirlitssýningu í Listagilinu á Akureyri. Þá verð ég þar í öllum húsum, í Listasafninu og út um allt, til að gefa heildarsýn yfir verkefnið.‟


Fjölmenningarhús í Verksmiðjunni á Hjalteyri

Þá er Aðalheiður líka hluti af níu manna hópi listamanna í Arnarneshreppi sem fengu styrk frá Menningarráðinu til þess að setja upp sumardagskrá í gömlu síldarverksmiðjunni á Hjalteyri. „Þetta er fjórða árið sem við höldum úti starfsemi í Verksmiðjunni. Hún er hugsuð sem menningarhús og það hefur allt mögulegt verið þar, allar listgreinar og alls konar uppákomur, fyrirlestrar, námskeið og sirkus. Dagskráin í sumar er líka fjölbreytt það sem búið er að skipuleggja. Við erum að gera þetta að húsi fyrir alla, að allir fái eitthvað fyrir sinn snúð og fyrir sitt áhugamál. Og við höfum gaman að því að fólkið hér á svæðinu og sveitirnar í kring hafa sýnt þessu áhuga og við erum farin að finna það að við erum með fastagesti sem koma hérna af svæðinu.‟ Aðalheiður mun því vinna ötullega að því að kveikja áhuga landsmanna á menningu og listum á komandi sumri þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir