Hunger Games

Ég horfði á hungurleikana um daginn og eftir að ég hafði lokið við að horfa á hana, velti ég fyrir mér hvaða skilaboð væri verið að senda. 

Myndin á sér stað í framtíðinni þar sem yfirvöld velja tvo einstaklinga á aldrinum 12-18 ára úr hverju héraði, sem eru tólf talsins, til þess að berjast til dauða í sjónvarpinu í beinni útsendingu.
     Að vissu leyti er myndin talsvert lagskipt af merkingum og tæpi ég aðeins á nokkrum hér.
Í rauninni er þetta samfélagsrýni þar sem verið er að skoða hvert við erum að stefna. Myndin sýnir mjög skýrt misskiptingu gæðanna og er það að vissu leyti kjarninn í myndinni. Það endurspeglar vel aðstæður í okkar nútímasamfélagi þar sem „forréttindafólk“ hefur til umráða ódýrt vinnuafl og stjórnar þeim eins og leikabrúðum og eiga þau sér varla viðreisnarvon. Myndin skírskotar til dekkstu kafla mannkynssögunnar, nasismann í Þýskalandi og hringleika Rómverja þar sem mönnum var varpað fyrir ljón.

Allt yfirbragð, s.s. umhverfið og tíska fólksins endurspeglar vel firringu og hégóma mannskepnunar og það versta sem finnst í mannlegu eðli eða lægstu hvatir okkar. Á móti kemur að aðalhetjan í myndinni lýsir dyggðum og öllu því góða sem getur prýtt manninn og ber hún mikla virðingu fyrir lífinu. 
Efnishyggja og þráin fyrir skemmtun í okkar daglega lífi er orðin svo sterk að það mætti að segja að hún sé orðin að ákveðinni þráhyggju, okkur má aldrei leiðast. Sjónvarp og tölvuleikir er einn þáttur af þeirri skemmtun sem er ráðandi í okkar samfélagi. Mikið ofbeldi kemur fram í þessum sýndarveruleika, sem rænir okkur smátt og smátt mennskunni og samkennd með náunganum. Ofbeldisleikir eru orðnir það raunverulegir í dag, að óhætt er að gera ráð fyrir því að þetta mun ganga enn lengra í framtíðinni, þannig að þessi hugmynd um „hungurleikanna“ er alls ekkert svo fjarstæðukennd eins og virðist við fyrstu sýn. Raunveruleikinn er jú oft ótrúlegri en skáldskapur.    
Myndin fær áhorfandan til þess að hugsa og velta fyrir sér framtíðinni og mæli ég hiklaust með henni. 

-Sigríður R. Marrow Arnþórsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir