Hvort er betra?

BAE framleiðir t.d. vopn á skriðdreka
Fyrr á þessu ári ætluðu framleiðendur klámmynda að halda ráðstefnu á Íslandi. Þegar fregnir bárust af því að þessir stórhættulegu glæpamenn hyggðust saurga okkur hreina og fallega land fór allt í bál og brand. Þegar yfir lauk var aðstandendum ráðstefnunnar bannað að leigja Hótel Sögu og því datt ráðstefnan upp fyrir.

Endalaust má þræta um réttlæti þess að banna umræddu fólki að leigja sér hótelherbergi og koma þannig í veg fyrir að ráðstefnan hafi verið haldin. En í ljósi þeirrar gríðarlegu umræðu sem skapaðist vegna þessa máls er það mjög undarlegt að fundur sem nú er í gangi hafi varla verið nefndur í fjölmiðlum.

Nú stendur nefnilega yfir fundur yfirmanna BAE vopnaframleiðslufyrirtækisins á Nordica Hotel í Reykjavík. Fyrirtækið er eitt það stærsta á sínu sviði í heiminum og jafnframt mjög umdeilt, sérstaklega í ljósi vafasamra samninga við Augusto Pinochet, leiðtoga Chile og einnig vegna samninga sem gerðir voru við Sádí-Arabíu.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þau áhrif sem stór vopnaframleiðslufyrirtæki hafa á líf fjölda fólks í heiminum og ætla í rauninni bara að varpa spurningu yfir til ykkar lesenda:

Hvort er skárra, klámframleiðendur eða vopnaframleiðendur? Einnig spyr ég hvort eðlilegt geti talist að klámmyndaframleiðendum sé bannað að leigja sér hótelherbergi hér á landi á meðan við opnum dyrnar fyrir framleiðendum drápsvopna?

Þorgeir Rúnar Finnsson


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir