Íbúðablokkin Ísland

Íbúðablokkin Ísland skiptist í fjórar hæðir.  Neðsta hæðin í blokkinni er lítt eftirsóknarverð en þar búa atvinnulausir, öryrkjar, láglaunafólk og aðrir slíkir. Á annarri hæð eru lífsskilyrðin betri en á þeirri fyrstu en á annarri hæð búa þeir sem sjá um þjónustustörf innan blokkarinnar ásamt kennurum, hjúkrunarfólki, verkamönnum og öðrum slíkum. Á þriðju hæðinni býr vel efnað fólk og ber þar að nefna verslunarstjóra, eigendur smáfyrirtækja, sölumenn og aðrir hátt settir einstaklingar í vel reknum fyrirtækjum o.s.fr. Þriðja hæðin fellur þó í skuggan af þeirri fjórðu hvað lífsgæði varðar en á fjórðu hæðinni búa auðmenn og helstu ráðamenn blokkarinnar. Þeir fara með völdin í blokkinni og eru jafnan sífellt að rífast yfir því hvað sé best fyrir íbúa blokkarinnar. Íbúarnir eru heldur ekki alltaf sáttir við þær ákvarðanir sem teknar eru á fjórðu hæðinni og velta því oft fyrir sér hvort ráðamenn á fjórðu hæðinni séu að starfa í þágu blokkarinnar eða hvort þeir séu að þjóna eigin hagsmunum. Mestu hitamál síðstu árin hafa snúið að einkavæðingu blokkarinnar en ráðamennirnir hafa nú einkavætt stærstu fyrirtækin, auðlindirnar og þá aðallega fiskinn og nú síðastliðin tvö til þrjú ár hafa þeir unnið að því að einkavæða heilbrigðis- og hitaveitukerfi blokkarinnar. Lífið gengur annars sinn vanagang í blokkinni og íbúar hennar flytjast af og til milli hæða en þekkt eru dæmi um að fólk af fyrstu og annarri hæð hafi látið sig hafa það að hefja sambúð með nett ómyndarlegu og leiðinlegu fólki af fjórðu hæðinni og er það til marks um hversu útsýnið þaðan er stórfenglegt.
    Fram til dagsins í dag héldu íbúar blokkarinnar að þeir tilheyrðu bestu blokk bæjarins en önnur varð raunin. Síðastliðin þrjú til fimm ár hafði blokkin verið á nettu eyðslufylleríi, skuldirnar höfðu hrannast upp samfara því að pólitíkusarnir á efstu hæðinni sögðu blokkina aldrei betur stadda. Bílakjallarinn fylltist af Range Rover, Porche og öðrum glæsibifreiðum, fólk af fyrstu og annarri hæð tók lán til þess að flytja upp á þriðju hæðina og fáeinir á þriðju hæðinni fluttu sig upp á fjórðu hæð. Íbúðirnar fylltust af allskyns glæsivarningi og blokkin varð ein sú glæsilegasta í öllum bænum þannig að nágrannablokkir eins og  íbúðablokkin Danmörk fór að láta heyra í sér og sögðu að brátt myndi íbúðablokkin Ísland falla til grunna. Íbúar Íslandsblokkarinnar sökuðu íbúa dönsku blokkarinnar um öfund og héldu áfram að djamma. Innan tíðar rættist hins vegar úr spá dönsku blokkarinnar því árið 2008 hristist blokkinn allsvaðalega til og þær efnahagsundirstöður sem höfðu haldið blokkinni uppi hrundu svo um munaði. Eyðslufylleríinu sem hafði staðið yfir síðustu ár var lokið og það skipti ekki máli hvort þú tókst þátt í því eður ei, allir innan blokkarinnar vöknuðu timbraðir og rúmlega það. Menn vöknuðu hins vegar mis timbraðir og kaldhæðni örlaganna sá um að þeir sem höfðu djammað sem minnst, fólkið af fyrstu, annarri og þriðju hæð, vöknuðu með mesta hausverkinn. Mikill glundroði ríkir nú innan blokkarinnar þar sem íbúarnir reyna að finna sökudólgana og beina flestir spjótum sínum að fjórðu hæðinni. Pólitíkusarnir á fjórðu hæð reyna nú að finna lausnir og benda nokkrir á Evrópu-íbúahverfið sem lausn en aðrir eru mótfallnir því og vilja aðrar lausnir. Þá hafa flestir auðmennirnir flúið á brott frá brennandi blokkinni en flestir eru á því að þessir sömu menn hafi orsakað neistann sem kveikti eldinn.
    Blokkin stendur því frammi fyrir erfiðum tímum. Með skuldahala á bakinu hefur dæmið snúist við og er blokkin nú orðin ein sú fátækasta. Íbúarnir eru nú að missa vinnuna innan blokkarinnar hver á fætur öðrum og ansi margir þurfa nú að sætta sig við að flytja sig niður á neðstu hæðina en eru samt sem áður að borga af íbúð á annarri og þriðju hæð. Íbúarnir margir hverjir velta því nú fyrir sér hvort þeir eigi að hjálpa til við að slökkva eldana eða hvort þeir eigi hreinlega að flýja brennandi Íslandsblokkina.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir