Flýtilyklar
Fjögur ný framboð
Kosið verður til Alþingis þann 29. október næstkomandi og nú þegar um mánuður er til kosninga er ljóst að kjósendur geta í það minnsta valið úr 13 framboðum. Er það tveimur framboðum færra heldur en í síðustu kosningum, þar sem þá voru 15 flokkar í framboði. Af þeim 13 framboðum sem bjóða fram lista í ár, hafa fjórir nýjir flokkar fengið úthlutað listabókstaf frá innanríkisráðuneytinu. Það eru Viðreisn (C), Íslenska þjóðfylkingin (E), Flokkur fólksins (F) og Framfaraflokkurinn (N).
Hægt er að reikna með að mörg þeirra framboða sem buðu fram í síðustu Alþingiskosningum verði aftur á kjörseðlinum í ár. Þó er ljóst er að nokkur þeirra munu ekki bjóða sig fram undir sér listabókstaf í komandi kosningum. Þar á meðal er framboð Sturlu Jónssonar sem genginn er til liðs við Dögun sem og Hægri grænir sem runnu saman við Íslensku þjóðfylkinguna.
Þess ber þó að geta að frestur til að skila inn framboðslistum til yfirkjörstjórnar rennur ekki út fyrr en föstudaginn 14. október. Svo enn gætu ný framboð átt eftir að skjóta upp kollinum.
Athygli vekur að enn er nægur tími til að tilkynna ný framboð þó að kosningar séu í raun hafnar, þar sem utan kjörfundar atkvæðagreiðsla hóst 21. september síðastliðinn.
Eftirfarandi stjórnmálaflokkar hafa tilkynnt framboð sín 26. september 2016:
Björt framtíð (A)
Framsóknarflokkurinn (B)
Viðreisn (C)
Sjálfstæðisflokkurinn (D)
Íslenska þjóðfylkingin (E)
Flokkur fólksins (F)
Húmanistaflokkurinn (H)
Framfaraflokkurinn (N)
Píratar (P)
Alþýðufylkingin (R)
Samfylkingin (S)
Dögun (T)
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V)
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir